Hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjanesbæjar veitt

Menntaráð Reykjanesbæjar veitir árlega hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi verkefni í leik-, grunn- og tónlistarskólum bæjarins. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatning og viðurkenning fyrir faglegt og nýstárlegt skólastarf sem getur orðið öðrum skólum og starfsmönnum til fyrirmyndar.

Hver skóli átti kost á að tilnefna eitt verkefni sem þykir hafa skarað fram úr á yfirstandandi skólaári, og bárust alls 12 tilnefningar í ár, sjö frá grunnskólum og fimm frá leikskólum. Úrvinnsla tilnefninga var í höndum skrifstofu menntasviðs, en það eru kjörnir fulltrúar í menntaráði Reykjanesbæjar sem taka endanlega ákvörðun um hvaða verkefni hlýtur hvatningarverðlaunin.

Tvö verkefni hlutu sérstaka viðurkenningu frá menntaráði í ár. Annars vegar verkefnið „Nýsköpunar og tæknimennt“ frá Háaleitisskóla, sem Drífa Hjördís Thorstensen stendur að, og hins vegar „Félagsfærni sem hittir í mark“ frá Heiðarskóla, unnið af Maríu Guðmundu Pálsdóttur, Unu Björk Kristófersdóttur og Þóreyju Garðarsdóttur.

Hvatningarverðlaun menntaráðs 2025 hlaut verkefnið „Heillaspor, verkefni til að efla vellíðan og tilfinningalegt öryggi í skólastarfi“ frá Stapaskóla. Að verkefninu standa Jón Haukur Hafsteinsson, Haukur Hilmarsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Selma Ruth Iqbal, Hólmfríður Rún Guðmundsdóttir, Linda Ósk Júlíusdóttir, Ingvi Hrafn Laxdal Victorsson og Gróa Arndal Axelsdóttir.

Reykjanesbær er stoltur af öllum þeim frábæru og fjölbreyttu verkefnum sem unnin eru í skólum bæjarins. Við erum afar þakklát fyrir framsýni, elju og metnað starfsfólks leik-, grunn- og tónlistarskólanna okkar, sem dag eftir dag leggja hjarta sitt í að skapa jákvætt og öflugt námsumhverfi fyrir börnin í bænum okkar. 

Nýsköpunar og tæknimennt
Nýsköpunar- og tæknimennt er verkgreinafag sem miðar að því að efla hæfni nemenda í skapandi lausnaleit, tæknilæsi og verkfræðilegri hugsun. Fagið byggir á samþættingu hagnýtrar vinnu, sjálfbærni og nýsköpunar með áherslu á að þróa færni nemenda til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Í kennslu nýsköpunar- og tæknimenntar eru notuð fjölbreytt kennslutæki og aðferðir sem stuðla að virku námi og auknum skilningi á tækni og samfélagi. Meðal þeirra viðfangsefna sem fagið spannar eru forritun, rafrásir, verkfræðileg hönnun, sjálfbærni og umhverfismál. Nemendur fá tækifæri til að vinna með tæki og tól á borð við Bee Bot, Dash, Scratch, Micro:bit, Arduino, Lego Spike, LittleBits, Makey Makey, Osmo, Sphero, KNEX, Spaghetteez, 3D hönnun og prentun, sýndarveruleika með CoSpaces og Merge Cube, auk einfaldra rafrása.

Lögð er áhersla á að tengja verkefni við sjálfbærnimenntun og hvetja nemendur til að hanna lausnir sem stuðla að endurnýtingu og ábyrgri nýtingu auðlinda. Verkefni eru stigskipt þannig að nemendur byggja smám saman upp hæfni í skapandi hugsun, hagnýtri tækni og verkfræðilegum lausnaleit, með áherslu á nýsköpun og þróun lausna sem tengjast daglegu lífi.

Fagið styður við markmið aðalnámskrár um hæfni í læsi á samfélag, sjálfbærni, nýsköpun, skapandi hugsun og tækni, og undirbýr nemendur undir fjölbreytt nám og starf í síbreytilegu samfélagi framtíðarinnar.

Félagsfærni sem hittir í mark
Í vetur var unnið markvisst félagsfærni verkefni með 7. bekk á miðstigi með það að meginmarkmiði að efla félagsfærni nemenda og umbreyta neikvæðum samskiptamynstrum í jákvæð og uppbyggileg. Undirmarkmið verkefnisins var að styrkja jákvæða leiðtoga innan hópsins og styðja við félagslega velferð allra nemenda.

Hópnum var skipt í minni hópa út frá þeim áskorunum sem höfðu komið fram í samskiptum. Hver hópur kom saman einu sinni í viku í 8 vikur, 2 mánuðir. Fyrir hvern fund var valið afmarkað efni sem tengdist félagsfærni, ábyrgð, samkennd og samskiptum, og lögð áhersla á opnar samræður þar sem nemendur fengu rými til að tjá sig og spegla eigin reynslu. Verkefnin voru unnin út frá ART, Baugjunni, Uppeldi til ábyrgðar og félagsfærnispilum.

Eftir hvern fund var sendur upplýsingapóstur heim til forráðamanna þar sem efni fundarins var dregið saman og þeir hvattir til að ræða málin við sitt barn. Með þessu var stuðlað að aukinni vitund og samvinnu heimilis og skóla.

Kennarar upplifðu jákvæða þróun í samskiptum nemenda á meðan verkefnið stóð yfir en þó sérstaklega að loknum 8 vikum. Betri samskipti voru á milli hópa, agi hjá nemendum varð betri, og nemendur náðu betur að setja sig í spor bekkjarsystkina, fengu fleiri verkfæri til þess að efla jákvæða framkomu og verða betri í því að leysa ágreining sín á milli. Forráðamenn hafa látið vita hvað þessi fræðsla og þjálfun til nemenda hefur haft jákvæð áhrif og hvað póstarnir heim hefðu skilað meiri samskiptum heima.

Heillaspor - verkefni til að efla vellíðan og tilfinningalegt öryggi í skólastarfi
Stapaskóli hefur síðastliðin tvö skólaár unnið markvisst að innleiðingu verkefnisins Heillaspor með það að leiðarljósi að styrkja félagslega og tilfinningalega velferð nemenda og skapa jákvætt og uppbyggilegt skólaumhverfi fyrir alla. Verkefnið var sett af stað með það í huga að veita kennurum og öðru starfsfólki skólans öflug verkfæri í „bakpokann“, svo þau geti betur mætt fjölbreyttum þörfum nemenda með skilning, nærveru og fagmennsku að leiðarljósi.

Áhersla á dýpri skilning á hegðun barna
Heillaspor snýst í grunninn um að kafa dýpra – að horfa ekki einungis á birtingarmynd hegðunar heldur að rýna í það sem liggur þar að baki. Hvaða reynsla, aðstæður eða tilfinningar geta skýrt hegðun sem við sjáum í skólastofunni? Hvort sem um er að ræða hegðun sem vekur athygli eða hina hljóðlátu fjarlægð, þá er markmiðið að mæta barninu af nærgætni og skilningi, ekki refsingu eða útilokun.

Þekkingaröflun og faglegur vöxtur
Innleiðingarteymi Heillaspora hefur unnið ötullega að því að byggja upp innri þekkingu innan skólans. Með þátttöku í fjölbreyttum námskeiðum, fræðslu og ráðgjöf – bæði með innlendum og erlendum sérfræðingum – hefur teymið skapað sterkan faglegan grunn sem nýtist öllu starfsfólki skólans. Teymið hefur einnig miðlað þessari þekkingu áfram reglulega, m.a. með framsöguerindum á starfsmannafundum, vikulegum pistlum og í skipulögðum vinnudögum þar sem starfsfólk fær tækifæri til að ígrunda, prófa og þróa aðferðir tengdar Heillasporshugmyndafræðinni í eigin starfi.

Heillaspor í daglegu lífi skólans
Til að tryggja að verkefnið verði lifandi hluti af skólastarfinu hefur teymið komið á fjölbreyttum aðgerðum og umbótum sem endurspeglast í daglegu lífi skólans. Þar má nefna:

  • Frír ávextir fyrir nemendur á hverjum skóladegi.
  • Sýnileg veggspjöld og áminningar um leiðir Heillaspora, sem styðja við jákvæða hegðun og sjálfsvitund nemenda.
  • Könnun meðal starfsfólks, sem veitir innsýn í hvernig leiðirnar í Heillasporsverkefninu eru nýttar í daglegu starfi og hvar tækifæri til frekari stuðnings liggja.
  • Stöðugur stuðningur við lausnamiðaða nálgun, þar sem kennarar og annað starfsfólk fá handleiðslu og ráðgjöf í að takast á við áskoranir í samskiptum og hegðun með styrkjandi og uppbyggilegum hætti.

Heillaspor – grunnur að velferð og farsæld í skóla.
Með Heillasporum er verið að leggja grunn að menningu sem byggir á trausti, tengslum og vellíðan – þar sem öll börn eiga rétt á því að vera séð, heyrð og virt. Verkefnið hefur þegar haft jákvæð áhrif á skólamenningu Stapaskóla og er dæmi um hvernig framsækin og fagleg nálgun getur skilað raunverulegum umbótum í skólastarfi.