Álver í Helguvík ekki lengur inn í efnahagsspám

Frá íbúafundi.
Frá íbúafundi.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ munu leggja traust sitt á eftirlitsstofnanir til að tryggja að mengun stóriðjufyrirtækja í Helguvík fari ekki yfir leyfileg mörk. Ekki sé líklegt að álver muni rísa í Helguvík á næstu árum. Mengunin er helsta áhyggjuefni þeirra íbúa sem eru mótfallnir breytingu á deiliskipulagi í Helguvík og fyrirhugaðri uppbyggingu stóriðjufyrirtækja þar, bæði á menn og dýr. Íbúabyggð er í um kílómeters fjarlægð frá Helguvík og hesthúsabyggð nokkru nær. Allir eru sammála um að draga megi góðan lærdóm af öllu þessu ferli.

Íbúafundur vegna íbúakosninga sem fram fara í Reykjanesbæ 24. nóvember til 4. desember var haldinn í Stapa í gærkvöld. Um 70 manns mættu á fundinn og voru umræður líflegar. Í pallborði voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og tveir fulltrúar frá íbúum sem eru mótfallnir breytingu á deiliskipulagi í Helguvík. Fundargestum var leyft að bera fram fyrirspurnir úr sal til aðila í pallborði.

Í máli Guðbrands Einarssonar á sjónarmiðum bæjaryfirvalda kom fram að ekki aðeins þyrfti bærinn að standa við gerða samninga, slíkt væri eðli góðrar stjórnsýslu, heldur væru miklir fjármunir í húfi ef ekki væri staðið við þá. Auk þess að leggja traust sitt á eftirlitsstofnanir varðandi vöktun á mengun benti Guðbrandur á að ólíklegt væri að álver Norðuráls myndi rísa í Helguvík. Ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárhagsspám um nokkur skeið, en hins vegar væru kísilverin tvö þar inni. Guðbrandur vísaði í samantekt sem Arnór Þ. Sigfússon hjá Verkís vann á útblæstri frá fyrirhuguðum verksmiðjum í Helguvík. Þar segir að miðað við þau gögn sem hafi verið lögð fram sé ekki ástæða til að ætla að samlegðaráhrif styrks brennisteinsdíoxíðs, fari yfir reglugerð utan þynningarsvæðis nema allar verksmiðjurnar þrjár verði í hámarksstærð skv. fyrirliggjandi starfsleyfum. Engin hætta sé hins vegar á að ryk eða flúor fari yfir reglugerð. Í máli bæjarfulltrúa kom fram að sívöktun verði á svæðinu á hverjum sólhring og skýrsla gefin út árlega.

Dagný Alda Steinsdóttir, sem fór fyrir íbúum sem eru mótfallnir deiliskipulagsbreytingunni, sagði hópinn berjast gegn síðari kísilverinu vegna of mikillar brennisteinsmengunar í íbúðabyggð, sem sé í kílómeters fjarlægð frá Helguvík. Hún áætlar að 2000 tonn af eitri fari út í andrúmsloftið daglega, sem hún líkti við martröð. Dagný Alda benti á, í sjónarmiðum hópsins, að þegar samningar voru gerðir hafi atvinnuleysi verið mikið, en nú sé það einungis 3,1%.

Allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar svöruðu því til að að þeir myndu ekki breyta afstöðu sinni væri vinna við uppbygginguna í Helguvík framar í samningaferlinu. Verið væri að skapa tækifæri á betur launaðri stöfum en nú bjóðast, bæjarfélaginu og íbúum til heilla. Það væri m.a. liður í að laða til bæjarfélagsins fleiri íbúa.  

Bæjarfulltrúar bentu að auki á að íbúalýðræði gæti ekki verið afturvirkt og að sveitarstjórnarlög heimiluðu ekki að varpa málum til íbúa sem hefðu með fjármuni bæjarfélagins að gera og því væri niðurstaða kosninga ekki bindandi, líkt og ákvæði í lögunum kveði á um. Hins vegar voru bæjarfulltrúar jafnt sem íbúar sammála um að íbúafundur sem þessi væri nauðsynlegur svo öll sjónarmið kæmust upp á yfirborðið og draga mætti af honum lærdóm fyrir sambærilegt mál sem á eftir kynnu að koma. Ragnheiður Þorgrímsdóttir ábúandi á bænum Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit, sem var í pallborði sem gestur íbúa sem eru mótfallnir deiliskipulagsbreytingunni, hrósaði Reykjanesbæ fyrir íbúakosninguna, upp á það hafi ekki verið boðið í Hvalfjarðarsveit við uppbyggingu stóriðju þar. Hún varaði bæjarfulltrúa hins vegar við að leggja of mikið traust á eftirlitsstofnanir.