Aukið íbúasamráð sveitarfélaga

Frá stefnumótunarfundi í Stapa nýverið þar sem starfsfólk og bæjarfulltrúar áttu samtal um áhersluþ…
Frá stefnumótunarfundi í Stapa nýverið þar sem starfsfólk og bæjarfulltrúar áttu samtal um áhersluþætti í rekstri Reykjanesbæjar. Stefnumótun Reykjanesbæjar til ársins 2030 er nú í vinnslu.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir umsóknum frá sveitarfélögum um þátttöku í verkefni sem miðar að því að kenna og innleiða markvissar aðferðir til aukins samráðs við íbúa. Í því skyni er sótt í reynslubanka sænskra sveitarfélaga sem hafa þróað með sér ákveðnar aðferðir og leiðir. Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 7. mars sl. að senda inn umsókn.

Þótt íbúasamráð og upplýsingaveita hafi aukist verulega í Reykjanesbæ á undanförnum árum, t.d. með fjölda opinna funda um skipulagsmál, fjármál, einstaka framkvæmdir o.fl., má alltaf gera betur. Ungmennaráð fundar tvisvar á ári með bæjarstjórn þar sem unglingarnir koma sínum sjónarmiðum á framfæri við bæjarfulltrúa, öldungaráð fundar af og til með kjörnum fulltrúum, ný lög um félagsþjónustu gera ráð fyrir auknu samráði við notendur félagsþjónustunnar o.s.frv. Einnig er til skoðunar við næstu fjárhagsáætlunargerð að gefa íbúum kost á að velja á milli ákveðinna verkefna eða framkvæmda í sínu hverfi, eins og sum sveitarfélög hafa þegar gert.

Verkefni sem gætu hentað vel til íbúasamráðs í Reykjanesbæ eru til dæmis fyrirhugaðar breytingar á strætisvagnaleiðum innan sveitarfélagsins, stefnumótun Reykjanesbæjar til ársins 2030, sem nú er í mótun, hönnun 2. og 3. áfanga Stapaskóla, framtíð stóriðju í Helguvík og margt fleira.

Ein áskorunin fyrir sveitarfélagið er að ná til þeirra sem raunverulega hafa hagsmuna að gæta í einstökum málum og verkefnum. Til dæmis hefur nýlega verið óskað eftir áhugasömum íbúum á aldrinum 20-40 ára til að taka þátt í 2-4 klst. setu í rýnihópi í tengslum við áðurnefnda stefnumótun. Fleiri mættu gefa kost á sér í þá vinnu og senda þátttökutilkynningu á rynihopur@reykjanesbaer.is. Einnig er stór áskorun að ná til þeirra 25% bæjarbúa sem eru af öðru þjóðerni en íslensku.

Vonandi náum við að læra og tileinka okkur betri og árangursríkari aðferðir til íbúasamráðs sem svo aftur leiða til breiðari sáttar um margvíslegar ákvarðanir í framtíðinni.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þýtt og staðfært handbók um íbúasamráð í sveitarfélögum og þátttaka sveitarfélaga úr sænsku.