Hátíð eins og Þjóðleikur mikilvæg í dómhörðu samfélagi

Aðstandendur Þjóðleiks á Suðurnesjum, ásamt Birni Inga og Ara.
Aðstandendur Þjóðleiks á Suðurnesjum, ásamt Birni Inga og Ara.

Þrír grunnskólar úr Reykjanesbæ, Akurskóli, Holtaskóli og Myllubakkaskóli tóku þátt í leiklistarhátíð Þjóðleikhússins í ár, Þjóðleik. Æfingar á leikverkum stóðu yfir fyrr á árinu en afraksturinn var sýndur á nokkrum sýningum í Gerðaskóla Garði á sumardaginn fyrsta og síðastliðinn föstudag. Þjóðleikhússtjóri sagði Þjóðleik afar mikilvægan í dómhörðu samfélagi þar sem miðlar ali á sundrungu, því hann efli meðlíðan. Þjóðleikur er 10 ára í ár.

Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni. Verkefnið er haldið að frumkvæði Þjóðleikhússins í góðu samstarfi við menningarráð, skóla, leikfélög og fjölda annarra aðila. Viðurkennd leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi spennandi leikverk fyrir aldurshópinn 13 til 20 ára sem svo er sett upp á lokahátíðum landshluta að vori.

Lokahátíðin fyrir Suðurnes fór fram í Gerðaskóla Garði á sumardaginn fyrsta. Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri og Björn Ingi Hilmarssson verkefnisstjóri Þjóðleik settu hátíðina. Í framhaldi hófst sýning skólanna fimm á Suðurnesjum sem tóku þátt. Auk Akurskóla, Holtaskóla og Myllubakkaskóla tóku Gerðaskóli og Grunnskóli Sandgerðis þátt. Skólarnir fimm völdu tvö leikrit sem þeir skiptust á að sýna, Iris eftir Brynhildi Guðjónsdóttur og Ólaf Egil Egilsson og Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Backmann. 

Margir nemendur eru að stíga sín fyrstu spor á leiksviði í verkefni Þjóðleiks. Auk þess að vera mjög lærdómsríka reynslu fyrir þá, er hún mikilvæg í reynslubanka unga fólksins, eins og Björn Ingi kom inn á við setningu hátíðarinnar. „Ég hóf minn leiklistarferil með svipuðum hætti, sem unglingur á landsbyggðinni. Það var mjög lærdómsríkt fyrir mig og ég veit að þetta verkefni er lærdómsríkt fyrir þá sem taka þátt. Verkefnið er ekki síður mikilvægur liður í að koma með leiklist til landsbyggðarinnar og inn í skólana.“ Björn sagði alltaf mikinn leiklistaráhuga á Suðurnesjum og mikinn drifkraft að finna þar.

Verkefnastjórar Þjóðleiks á Suðurnesjum voru Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir og Vito Hugo Rodrigues Eugenio. Fengu þau þakklætisvott frá Þjóðleikhúsinu.

Verkefnastjórarnir Ingibjörg Jóna og Vito Hugo taka hér við viðurkenningu frá Birni Inga og Ara

Hér ávarpar Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri ungu leikarana