Teflt á Gimli.
Teflt á Gimli.

Skimunarprófið leið til læsis er lagt fyrir í fyrsta bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar um mánaðarmótin september október ár hvert. Prófið gefur kennurum upp nákvæma stöðu nemenda í hljóðkerfis og hljóðavitund, bókstafa og hljóðaþekkingu og málskilningi og orðaforða. Hingað til hefur prófið einungis verið notað til að auka gæði kennslu í grunnskólum bæjarins. 

Ákveðið var að greina niðurstöður nemenda enn frekar eftir því á hvaða leikskólum þau höfðu verið. Að því búnu var niðurstöðum skilað til hvers leikskóla fyrir sig, þar sem niðurstöður prófs sem lagðar eru svo snemma fyrir í grunnskóla gefa einnig sterkar vísbendingar um það hversu vel nemendur eru undirbúnir til grunnskólagöngu. Niðurstöður voru strax notaðar til að rýna í innra starf leikskólanna. Prófið hefur ekki verið notað með þessum hætti áður að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar fræðslustjóra sem sagði ánægjulegt að geta nýtt upplýsingarnar á báðum skólastigum.

Að sögn Gylfa Jóns er markviss notkun skimunarprófa hluti af verklagi Framtíðarsýnar Reykjanesbæjar, Sandgerði og Garðs sem miðar að því að koma leik og grunnskólum sveitarfélaganna í fremstu röð á landsvísu. Hluti af  þessari framtíðarsýn er að stjórnendur í skólunum deili niðurstöðum skimunarprófa með það að markmiði að allir skólar tileinki sér þá kennsluhætti sem reynslan sýnir að virkar best. Skilvirk kennslufræði dreifist því hratt á milli skóla á Reykjanesi. Unnið hefur verið eftir þessu verklagi í þrjú ár og hafa miklar námslegar framfarið orðið í grunnskólum sveitarfélaganna, auk þess sem börn koma nú betur undirbúin undir grunnskólagöngu en áður í móðurmáli og stærðfræði.