Horft yfir Reykjanesbæ.
Horft yfir Reykjanesbæ.
Nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar bættu sig um 40 stig í náttúruvísindum í PISA könnun milli áranna 2012 og 2015. Þetta sýna nýjar samanburðarniðurstöður Menntamálastofnunar. Miklar framfarir urðu einnig hjá nemendum í stærðfræði, samtals 29 stig og 28 stig í lesskilningi.
 
Í skýrslu Menntamálastofnunar segir að læsi á náttúrufræði aukist marktækt mjög mikið í Reykjanesbæ, enda fór það úr 426 stigum árið 2012 í 466 stig. Þar segir jafnframt að samkvæmt viðmiði OECD megi áætla að breytingin í Reykjanesbæ nemi næstum því einu og hálfu skólaári. Í stærðfræði urðu framfarir hjá nemendum úr 456 stigum í 485 og segir í skýrslunni að læsi á stærðfræði aukist marktækt í Reykjanesbæ. Ennfremur segir þar að samkvæmt viðmiði OECD megi áætla að breytingin í Reykjanesbæ nemi um 2/3 úr skólaári. Í lesskilningi fór árangur úr 452 stigum í 480 stig. Samkvæmt skýrslunni má segja að framfarir í lesskilningi í Reykjanesbæ nemi heilu skólaári. 
 
Mörg undanfarin ár hefur verið unnið mjög gott starf í menntamálum í Reykjanesbæ. Sá árangur sem náðst hefur og endurspeglast meðal annars í þessum niðurstöðum er ekki síst tilkominn vegna þess að allir hafa lagst á árarnar. Fagleg forysta fræðsluskrifstofunnar hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem og metnaðarfullir stjórnendur og framúrskarandi kennarar. Í raun má segja að allir íbúar sveitarfélagsins hafi tekið þátt í því verkefni að gera samfélagið okkar að því öfluga lærdómssamfélagi þar sem læsi hefur verið þungamiðjan.