Reykjanesbær hyggst vera í forystu bæjarfélaga til að stuðla að notkun vistvænnar orku í samgöngum. Markmiðið er að innan fimm ára verði öll samgöngutæki sem bærinn nýtir, svo sem almenningsvagnar og þjónustubílar, knúnir vistvænum orkugjöfum. Leitað verður samstarfs við helstu fyrirtæki sem tengjast Reykjanesbæ. Verkefninu verður áfangaskipt m.a. þannig að ákveðin hverfi eða svæði, eins og Ásbrú, verða helguð vistvænum samgöngum. Mikilvægt er að nýta vel þá vistvænu orkugjafa sem til staðar eru s.s. metan en um leið ber að hvetja til frekari framþróunar á öðrum vistvænum orkugjöfum í samgöngutæki s.s. vistvænu metanóli og raforku.

Þátttaka í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands er að mati forsvarsmanna Reykjanesbæjar mikilvægur liður í að efla vitund almennings um framtíðarlausnir á sviði vistvænna orkugjafa fyrir samgöngutæki, sem eru nær okkur í tíma en margir ætla.
EVEN hf. stendur að þjóðarátaki um uppbyggingu heildarkerfis sem gerir rafbílavæðingu Íslands mögulega.
Verkefnið byggir á þátttöku lykilfyrirtækja og stofnana í samfélaginu, auk ríkis og sveitarfélaga, sem stuðla þannig að nýtingu raforku í samgöngum , þjóðinni til heilla. Þátttakendur eiga það sameiginlegt að vilja axla samfélagslega ábyrgð. Með þátttöku í verkefninu senda þeir skýr skilaboð til samfélagsins, sinna birgja, samstarfsaðila og viðskiptavina um gildi þess fyrir þjóðfélagið að rafbílavæðing Íslands verði að veruleika.

Reykjanesbær hefur haft á stefnuskrá sinni að rafbílavæðast og hóf af því tilefni vinnu á liðnu ári við verkefnið Rafvæddur Reykjanesbær. Verkefnið gengur út á það að fá lykilstofnanir og fyrirtæki í sveitarfélaginu með í sameiginlega vegferð til þess að nýta raforku í samgöngum. Nú hefur Reykjanesbær ákveðið að fella Rafvæddan Reykjanesbæ inn í þjóðarátakið um rafbílavæðingu Íslands. Munu sveitarfélagið og þjóðarátakið vinna saman að rafbílavæðingu Reykjanesbæjar á sama hátt og þjóðarátakið gerir um land allt. Þjóðarátakið mun alfarið sjá um framkvæmd líkt og annars staðar með stuðningi sveitarfélagsins.

Þátttaka Reykjanesbæjar í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands útilokar ekki þátttöku í öðrum verkefnum sem stuðla að notkun innlendrar orku sem er megininntak þjóðarátaksins. Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á rafmagni, framleiðslu þess og dreifingu og þetta er sérsvið sem þjóðin getur notað sem grunn að orkuskiptum í samgöngum. Þjóðarátakið er eina heildstæða orkuskiptiáætlunin sem rekin er í dag á Íslandi. Rafmagn er sá orkugjafi sem við eigum mest af og kostar samfélagið minnst að framleiða og dreifa. Enginn annar orkugjafi kemst nálægt rafmagni í nýtingu, einfaldleika og hagkvæmni fyrir þjóðina.

Gríðarlegur kostnaður er fyrir samfélagið að dreifa orku í núverandi mynd. Mikið af þeim kostnaði er ekki inni í útreikningum þegar heildarmyndin er skoðuð. Heildarkostnaður við að flytja olíu til landsins, geyma hana á tönkum og dreifa síðan með stórum flutningabílum er gríðarlegur og þann kostnað bera neytendur. Ónefndur er sá umhverfislegi ávinningur sem felst í því að sleppa því að dreifa orku í formi vökva eða gasi með bílum. 
Rafbíllinn skilur sig algerlega frá öllum öðrum tegundum samgöngutækja hvað varðar orku og má ætla að í fyrirsjáanlegri framtíð muni ekkert geta keppt við rafmagnið hvað þetta varðar. Það góða við rafbíla er að hægt er að framleiða rafmagnið í heimabyggð. 
Samningurinn við Reykjanesbæ er til fimm ára líkt og aðrir samningar sem Þjóðarátakið gerir við þátttakendur og þau atriði sem samningurinn fjallar um eru:

• að Reykjanesbær taki virkan þátt í uppbyggingu hleðslukerfis EVEN fyrir rafbíla með því að kosta til og setja upp orkupósta við höfuðstöðvar sínar og útibú. Orkupóstarnir eru ætlaðir til notkunar fyrir viðskiptavini, starfsmenn og fyrir eigin rafbíla sveitarfélagsins. Fjöldi slíkra orkupósta fer eftir umfangi starfseminnar, en sérstök uppsetningaráætlun verður unnin í samráði við sérfræðinga EVEN. Þegar slíkir orkupóstar hafa verið uppsettir og tengdir eru þeir eign EVEN sem sér alfarið um rekstur og viðhald þeirra.
• að Reykjanesbær skipti út bílaflota sínum fyrir rafbíla að því marki sem mögulegt er, þannig að eðlilegum áætlunum um endurnýjun verði fylgt og ekki verði um íþyngjandi aðgerðir að ræða. Áætlun um bílaskipti á 5 árum verður útbúin í samráði við EVEN.
• að Reykjanesbær fái fyrirtæki og stofnanir með í þjóðarátakið til að flýta fyrir rafbílavæðingu í sveitarfélaginu.
• að Reykjanesbær fræði starfsfólk sitt um mikilvægi þess að nýta innlenda orkugjafa og kosti rafbíla.
Þeir þættir sem lúta að þjóðarátakinu og EVEN skuldbindur sig til að gera eru eftirfarandi:

• að byggja upp framangreint kerfi um land allt, m.a. með aðstoð þátttakenda Kerfið mun veita rafbílanotendum í Reykjanesbæ aðgang að öruggri staðlaðri lausn til að hlaða rafbíla um land allt. 
• að hanna, smíða og eiga á lager búnað og öruggar lausnir fyrir kerfið, bæði til viðhalds og fyrir eðlilega þróun þegar til framtíðar er litið.
• að tryggja að rafbílar verði í boði fyrir þátttakendur verkefnisins og íbúa sveitarfélagsins á samningstímanum.
• að nota íslenskt hugvit við hönnun og uppbyggingu lausna tengdu kerfinu eins og kostur er.
• að veita þátttökuaðilum aðgang að fræðslu- og kynningarefni um gildi rafbílavæðingar fyrir þjóðfélagið.
• að standa að fræðslu í grunn- og framhaldsskólum og gefa út fræðslurit um kosti rafbílavæðingar og halda úti fræðsluvef um sama efni.

Tilkynnt verður á vormánuðum um heildstætt net orkupósta og hraðhleðslustöðva sem settar verða upp fyrir rafbílaeigendur um land allt. Verður á heimasíðu hægt að sjá staðsetningu orkupósta hjá þátttakendum útfrá GPS hnitum og hvenær á samningstímanum orkupóstarnir og hraðhleðslustöðvarnar verða settir upp.

Um allan heim er að fara af stað rafbílavæðing í borgum og bæjum og eru þau verkefni að meginhluta til drifin áfram af opinberu fé. Hér á landi var farin sú leið að virkja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til þátttöku í þjóðarátaki þar sem engin opinber stofnun hefur bolmagn til að setja slíkt heildstætt kerfi upp.

Þjóðarátakið mun því í samstarfi við þátttakendur byggja upp slíkt kerfi fyrir rafbílaeigendur.

Notum íslenska orku!