Virkja útblástur kísilverksmiðju í Helguvík

Fyrirtækið Atlantic Green Chemicals ehf. (AGC) telur að fyrirhuguð framkvæmd við byggingu og síðar rekstur lífalkóhól og glýkólverksmiðju á iðnaðarsvæði Reykjanesbæjar við Helguvíkurhöfn muni hafa óveruleg áhrif á umhverfi en verulega jákvæð áhrif á samfélag og fjölbreytileika í atvinnulegu tilliti á svæðinu.

AGC ehf. ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum sínum hyggur á reisingu og rekstur verksmiðju við Helguvík, Reykjanesbæ þar sem aðallega verða framleidd glýkól auk minna magns af blöndu alkóhóla. Hráefni er svokallað hrá-glýserín sem er aukaafurð úr lífdíseliðnaði. Hrávara verður flutt að verksmiðju í tankskipum þar sem leitast verður við að nota sama skip undir útflutning afurða, þannig að flutningstækin nýtist í báðar áttir. Í fyrsta áfanga verður stefnt að því að framleiða 30.000 tonn af afurðum á ári, en eftir stækkun er stefnt að heildarframleiðslugetu uppá 125.000 tonn á ári.
Staðsetning verksmiðju við Helguvík ræðst af möguleikum til orkunýtingar með virkjun útblástursvarma fyrirhugaðrar kísilverksmiðju Íslenska Kísilfélagsins, ISC, verkefnis sem þegar er í framkvæmdaferli.. Ennfremur er á svæðinu aðgengileg góð lóð og hafnaraðstaða, svo og geymslurými fyrir hrávöru fyrirtækisins í núverandi olíubirgðastöð á svæðinu. Flest allir flutningar fara fram um Helguvíkurhöfn og eykur það umsvif hafnarinnar sem því nemur. Orka eins og raforka verður aðgengileg á svæðinu með lagningu háspennujarðstrengs sem tengist inn á svæðið vegna annarra verkefna. Verksmiðjubygging Kísilfélagsins verður við höfnina innan við 100 metra frá athafnasvæði AGC þannig að nauðsynlegar lagnir á milli fyrirtækjanna verða minni háttar í framkvæmdalegu tilliti.
Byggingar verða nokkrar. Má þar helst nefna rafgreiningarstöð, húsakostur eimingarkerfa, þjöppustöð, aðstöðu vegna lífgasframleiðslu og starfsmannaaðstöðu auk stálvirkja og lagna. Ennfremur verða byggðir geymar fyrir geymslu á hrávöru og afurðum auk þróar til varnar lekum frá tönkum. Bygging verksmiðju og framleiðslubúnaðar fellur að gildandi skilmálum aðalskipulags og deiliskipulags Reykjanesbæjar. Lóðamál og nánari útfærslur bygginga verða útfærð í samvinnu við skipulags- og byggingaryfirvöld Reykjanesbæjar.
 
Þetta kemur fram í frummatsskýrslu sem AGC hefur sent Skipulagsstofnun vegna mats á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar.
 
Í skýrslunni segir, að í verksmiðjunni eigi að framleiða umhverfisvænar og grænar efnavörur úr endurnýjanlegum hráefnum frá landbúnaði. Um sé að ræða nýjan rekstur sem ekki hafi verið starfræktur á Íslandi áður. Starfsemin feli hvorki í sér losun á koldíoxíði né á öðrum gróðurhúsalofttegundum.
Þá segir að framkvæmd verkefnisins og rekstur verksmiðjunnar muni blása lífi í atvinnumál sveitarfélagsins. Við undirbúning og framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar verði til um 150 störf, en þegar reksturinn verði hafinn skapist 25-30 störf á fjölbreyttum vettvangi. Í fullri stærð skapi verksmiðjan um 50 heilsársstörf. Bæði verði þörf á starfsfólki með háskólamenntun, iðnaðarmenntun, verslunarmenntun og einnig skapist störf þar sem fagmenntunar verður ekki krafist.