10 ára siglingarafmælis Víkingaskipsins Íslendings fagnað

Víkingasverðið á hringtorginu við Víkingaheima.
Víkingasverðið á hringtorginu við Víkingaheima.

Á morgun, þjóðhátíðardaginn 17. júní verða liðin tíu ár frá siglingu Gunnars Marels og áhafnar Víkingaskipsins Íslendings til Norður-Ameríku. Íslendingur sigldi til New York árið 2000 í tilefni 1000 ára afmælis landafunda víkinga á Norður-Ameríku. Skipið var sent af stað af þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni og sigldi það á milli 25 hafna þar til að það sigldi inní New York höfn þann 5. október sama ár eftir 111 daga ferðalag. Á meðan að á ferðinni stóð komu yfir 300 þúsund gestir um borð í skipið. Ferðin var styrkt af Landafundanefnd, Ríkisstjórn Kanada og Ríkisstjórn Bandaríkjanna.

 Við það tilefni mun verða frítt inn í Víkingaheima og sérstök hátíðardagskrá. Dagskráin hefst klukkan 16 með ávarpi Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Eftir það mun Gunnar Marel afhjúpa nýtt kort sem sýnir siglingaleið Íslendings. Þórunn Erna Clausen mun svo flytja hluta úr leikritinu Ferðasaga Guðríðar sem sýnt hefur verið um borð í Íslendingi við gífurlega góðar undirtektir. Karlakór keflavíkur flytur einnig nokkur sérvalin lög í tilefni dagsins. Áhöfn skipsins mun koma saman laugardagskvöldið 19. júní til að fagna sérstaklega ferðinni og fá að sjá flutning á leikritinu Ferðasaga Guðríðar.

 Íslendingur hefur undanfarið ár staðið til sýnis í Víkingaheimum, stórglæsilegu safni á Fitjum í Reykjanesbæ og hafa yfir 23 þúsund gestir komið á því ári sem liðið er síðan að það var opnað. Í Víkingaheimum er einnig að finna sýningu um allt sem viðkemur víkingaskipum og notkun þeirra á öldum áður.