Húsnæði Keilis
Húsnæði Keilis

80 fyrirtæki og 1800 íbúar komin á Ásbrú
-sem  fyrir aðeins 5 árum var draugabær.
Yfir 80 fyrirtæki  og stofnanir hafa sest að með starfsemi  á því svæði sem áður tilheyrði bandaríska varnarliðinu en tilheyrir nú Ásbrú í Reykjanesbæ.  Fyrir aðeins fimm árum síðan bjó þar ekki nokkur maður eftir brotthvarf varnarliðsins og örfá fyrirtæki sátu aðgerðarlaus eftir. Nú búa nær 1800 íbúar í þessu hverfi Reykjanesbæjar.

Þetta kom fram á íbúafundi með bæjarstjóranum í Reykjanesbæ í Njarðvík s.l. mánudag. Fyrir aðeins  fimm árum síðan var svæðið draugabær eftir að herinn hvarf á braut og umræða sumra stjórnmálaafla  var að réttast væri að jafna byggingar svæðisins við jörðu.

Í stað þess voru byggingar nýttar til tekjuöflunar,  mest í þágu uppbyggignar svæðisins. Nú búa um 1700 íbúar á svæðinu, mest námsmannafjölskyldur, sem er fleira en býr í nágrannabæjum eins og Garði, Vogum  eða Sandgerði.  

Á íbúafundum með Árna Sigfússyni bæjarstjóra  sem haldnir hafa verið í Reykjanesbæ að undanförnu hefur komið  fram að mjög mikil nýsköpun og frumkvöðlastarf á sér stað að Ásbrú.  Kadeco, þróunarfélagið sem sér um svæðið, stofnaði snemma í vinnu sinni  til frumkvöðlasetra þar og hefur hlúð að uppbyggingu slíkra verkefna. Þar munar þó mestu um Keili, samfélag vísinda, fræða og atvinnulífs, sem var stofnað í kjölfar brotthvarfs Varnarliðsins, að frumkvæði Reykjanesbæjar og Kadeco.

Flóra fyrirtækja og stofnana spannar vítt svið. Mikið er um lítil sprotafyrirtæki, sem Heklan, atvinnuþrounarfélag Suðurnejsa, hlúir að í frumkvöðlasetrinu Eldey. Þar starfa hugvitsmenn og hönnuðir á sviði öryggisbúnaðar, myndbúnaðar, fata- og listhönnunar ofl. ofl. Stærri fyrirtæki hafa sest að eins og rafræna gagnaverið Verne Global, Gagnavarslan, sjávarútvegstæknifyrirtæki eins og Málmey, bílaleigur, heilsuhótel, auk annarra heislutengdra  og flugtengdra verkefna. Innviðir samfélagsins að Ásbrú hafa veriðs tyrktir með tveimur leikskólum og einum grunnskóla á vegum Reykjanesbæjar, auk lítils útibús löggæslunnar. Innleikjagarður fyrir börn er starfræktur ás væðinu, sem nú stendur til að stækka. Mikið gróðurræktarátak er framundan að Ásbrú.