Að búa í náttúruundri

Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir
Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir

Í grunnskóla er okkur kennt að Reykjanes sé lifandi svæði, við lærum að það er ekki spurning hvort það gjósi heldur hvenær. Smá titringur eða aðeins meiri hristingur er eitthvað sem við upplifum með morgunkorninu okkar og furðum okkur reglulega á því hvað sé eiginlega svona merkilegt við fallega svæðið okkar.

Ástæða þess að Reykjanes er svo merkilegt er sú að Mið-Atlantshafshryggurinn sem liggur að mestu undir sjó, kemur þar á land. Út frá honum reka tvær jarðskorpuplötur í gagnstæðar áttir (Evrópu og Ameríku), að meðaltali 2,0- 2,5 cm á ári – Það þýðir að náttúruöflin sem eru svo lifandi hjá okkur eru ekki bara einstök heldur stór merkilegt og þannig hefur svæðið fengið hina alþjóðlegu og mikilsvirtu viðurkenningu að vera UNESCO global geopark.

Eldgosið í Geldingadal er bein afleiðing af þessari sérstöðu og það sem vekur mikla athygli í þessu gosi er hvaðan kvikan er að koma, þ.e. úr iðrum jarðar á um 17-25 km dýpi. Hún er því ættuð úr möttli og hefur ekki stoppað mikið við á leiðinni upp. Umbrotunum á gos svæðinu er líklegast hvergi nærri lokið og því höfum við tækifæri til að fá einstaka innsýn í landi í mótun. Tækifæri til að læra og upplifa og á sama tíma minnir þetta okkur á að sú virðing sem við berum fyrir náttúrunni er ekki úr lausu lofti gripin heldur byggð á rúmlega þúsund ára reynslu.

Þeir sem ætla að leggja leið sína að gosinu eru hvattir til að kynna sér aðstæður vel áður en lagt er af stað. Það er hægt að gera á upplýsingasíðu Markaðsstofu Reykjanes.

Upplýsingasíða Markaðsstofu Reykjanes

Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ferðamála hjá Reykjanesbæ

Eldgos

eldgos