Aðalsteinn Ingólfsson hlýtur Súluna

Aðalsteinn Ingólfsson handhafi Súlunnar menningarverðlauna Reykjanesbæjar
Aðalsteinn Ingólfsson handhafi Súlunnar menningarverðlauna Reykjanesbæjar

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2022, var afhent við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum í dag. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og sjötta sinn sem Súlan var afhent. Að þessu sinni hlaut Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur verðlaunin fyrir framlag sitt til uppbyggingar og eflingar Listasafns Reykjanesbæjar. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri afhenti Súluna fyrir hönd bæjarstjórnar og menningar- og atvinnuráðs. Við tilefnið sagði hann hverju bæjarfélagi mikilvægt að eiga fólk sem vinnur að uppbyggingu jákvæðra málefna í bæjarfélaginu og að bæjarstjórn Reykjanesbæjar vilji með táknrænum hætti þakka fyrir það með veitingu menningarverðlaunanna.

Framlag til bókmennta og lista

Aðalsteinn er fæddur árið 1948, sonur Ingólfs Aðalsteinssonar, veðurfræðings og síðar forstjóra Hitaveitu Suðurnesja og Ingibjargar Ólafsdóttur, húsfreyju. Þar sem faðir hans vann lengi fyrir Veðurstofuna á Keflavíkurflugvelli bjó fjölskyldan lengst af á Suðurnesjum, fyrst á flugvallarsvæðinu og síðan við Borgarveginn í Njarðvík. Síðar sótti Aðalsteinn sér framhaldsmenntun m.a. á sviði bókmennta og listasögu við erlenda háskóla og hefur starfað sem listfræðingur, stundakennari í listfræði við Háskóla Íslands og auk þess sjálfstætt, sem sýningarstjóri og gagnrýnandi.

Aðalsteinn hefur ritað um myndlist á ýmsum vettvangi og komið að útgáfu hátt í fjörutíu bóka um íslenska og færeyska myndlist og menningarmál og um þrjátíu safnrita um sömu viðfangsefni. Nýjasta bók Aðalsteins, Þingvellir í íslenskri myndlist, kemur út í haust hjá Hinu Íslenska Bókmenntafélagi. Þá liggja ókjör af tímaritsgreinum eftir hann.

Stóran hluta ævi sinnar hefur Aðalsteinn unnið á hinum ýmsu listasöfnum, Listasafni Reykjavíkurborgar, Listasafni Íslands, Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og á Hönnunarsafni Íslands sem fyrsti forstöðumaður þess. Fyrir þessar stofnanir og fleiri aðila hefur hann sett upp hartnær áttatíu sýningar auk þess að vinna að alls konar sýningarverkefnum fyrir um það bil eitt hundrað listamenn, íslenska og erlenda.

Samstarfið við Listasafn Reykjanesbæjar

Samstarfið við Listasafn Reykjanesbæjar hófst árið 2004 en Aðalsteinn var nánast frá upphafi aðal ráðgjafi safnsins undir stjórn Valgerðar Guðmundsdóttur, fyrrum menningarfulltrúa, sem veitti safninu forstöðu.

Á síðastliðnum 19 árum hefur Aðalsteinn sett upp í það minnsta 36 myndlistarsýningar hjá Listasafni Reykjanesbæjar, ásamt því að sitja í listráði safnsins allt til ársins 2020.

Aðalsteinn hefur gætt hagsmuna safnsins á vettvangi myndlistar á Íslandi. Hann hefur verið milligöngumaður um það að safnið hefur fengið stórar myndverkagjafir eftir merka listamenn. Árið 2020 stóð Aðalsteinn fyrir sýningu og listaverkagjöf til safnsins sem telur um 250 myndverk eftir Daða Guðbjörnsson. Það sama ár, fyrir tilstilli Aðalsteins, fékk Listasafn Reykjanesbæjar veglega gjöf frá erfingjum Bjargar Þorsteinsdóttur, myndlistarmanns, sem telur um 100 grafíkmyndir og 19 stór akrýlmálverk.

Nú telur safneign Listasafns Reykjanesbæjar, um 1500 myndverk og þannig er safnið orðið eitt af stærri listasöfnum Íslands. Sú staðreynd er ekki síst Aðalsteini Ingólfssyni að þakka.

Í samstarfi þeirra Valgerðar vakti safnið verðskuldaða athygli og viðurkenningu. Meðal annars var samsýning í safninu valin ein af listsýningum ársins af fjölmiðlum, og fyrir tveimur árum var sýning safnsins á verkum eftir Guðjón Ketilsson valin listsýning ársins af Safnaráði. Í kjölfarið fóru að berast margar fyrirspurnir frá íslenskum og erlendum listamönnum um sýningarmöguleika hér á Suðurnesjum.

Fagmennsku safnastarfs Listasafns Reykjanesbæjar má m.a. rekja til þess stuðnings sem listasafnið hefur ávallt notið frá Aðalsteini sem hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu myndlistar í Reykjanesbæ, í um tveggja áratuga skeið.

Með veitingu Súlunnar færir Bæjarstjórn og menningar- og atvinnuráð Aðalsteini þakkir fyrir áralanga vinnu og stuðning við Listasafn Reykjanesbæjar.