Aðstaða til tónlistarnáms hvergi betri en í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Frá tónlistarflutningi í Bergi.
Frá tónlistarflutningi í Bergi.

Hið nýja húsnæði Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í Hljómahöll er afar vel búið hljóðfærum og öðrum búnaði. Nýja skólahúsið er rúmgott, en skólinn fór úr 12 nemendarýmum gömlu húsanna, í alls 30 nemendarými. Þar af eru 25 kennslustofur fyrir hljóðfæra- og söngkennslu, tónfræðagreinakennslu, smærri samleiks- og samsöngshópa og tölvutónlistarkennslu, eða tónver. Þar fyrir utan eru tvö rými sem tilheyra upptökuveri Tónlistarskólans sem Hljómahöll mun einnig nýta. Auk þess er í skólanum stór og einstaklega vel búinn hljómsveitasalur, sem er m.a. settur upp og alltaf tilbúinn fyrir a.m.k. 50 manna hljómsveit. Tónlistarskólinn er svo búinn tveimur stofum sem eru eingöngu ætlaðar nemendum til að æfa sig í, en það er alltaf eitthvað um að nemendur hafi ekki góðar aðstæður heima fyrir til að æfa sig. Þeir hafa þá aðstæður til þess í sjálfum Tónlistarskólanum.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur greiðan aðgang að báðum tónleikasölum Hljómahallar. Annars vegar er það Stapi sem tekur um 400 tónleikagesti í sal og á svölum og hins vegar Berg sem tekur um 100 tónleikagesti í sæti á stöllum, þannig að yfirsýn tónleikagesta til flytjenda er mjög góð. Stapi og Berg eru báðir mjög fallegir tónleikasalir og hljómburður afar góður. Í þessum tveimur tónleikasölum eru afbragðs góðir flyglar sem voru valdir sérstaklega  af tveimur virtustu píanóleikurum landsins. Í Stapa er Bösendorfer flygill Grand-konsert stærð, eða 270 cm. langur. Í Bergi er Steinway & Sons flygill af C stærð, eða 227 cm. langur. Hvor um sig hæfa sölunum einstaklega vel. Í Hljómahöll er einnig lítill og einstaklega fallegur kvikmyndasalur, Félagsbíó, með nauðsynlegum búnaði til að sækja myndbönd af netinu sem og til að spila mynddiska og annað efni. Skólinn hefur aðgang að Félagsbíói fyrir nemendur og kennara. Það er því ljóst Tónlistarskóli Reykjanesbæjar í samvinnu við Hljómahöll, býr við allra ákjósanlegustu aðstæður til kennslu og tónleikahalds.