Aðventugarðurinn 2021
Aðventugarðurinn 2021

Á þessum síðasta degi jóla, sjálfum þrettándanum, færir Reykjanesbær íbúum kærar þakkir fyrir einstaklega góðar viðtökur á Aðventugarðinum og Aðventusvellinu á aðventunni. Dagskrá í Aðventugarðinum er nú lokið en skautasvellið verður áfram opið a.m.k. út febrúar og vonum við að íbúar verði duglegir við að nýta sér svellið og njóta einstaklega skemmtilegrar og hressandi útiveru.

Aðventusvellið áfram opið

Aðventusvellið hefur sannarlega fengið frábærar viðtökur yfir aðventuna en yfir 1300 manns hafa farið á skauta yfir hátíðarnar. Gengið er út frá því að svellið verði opið fimmtudaga og föstudaga frá kl. 15-20 og laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-20 en þó er tekið mið af veðri og því gott að fylgjast með á vefsíðunni adventusvellid.is og á miðlum Reykjanesbæjar. Þannig hefur verið tekin ákvörðun um að svellið verði lokað fimmtudag og föstudag í þessari viku vegna slæms veðurs en stefnt er að opnun um helgina. Sérstök Facebook og instagramsíða er í undirbúningi fyrir svellið og þar ætti einnig að vera auðvelt að nálgast upplýsingar.

Aðventugarðurinn fyrir fólk með fólki

Aðventugarðurinn var settur á laggirnar fyrir jólin 2020 með skömmum fyrirvara á Covid tímum og hafði að markmiði að lífga upp á tilveruna og skapa skemmtilega og notalega stemningu í aðdraganda jóla. Garðurinn hlaut frábærar viðtökur, þrátt fyrir heilmiklar takmarkanir, og ljóst að íbúar kunnu vel að meta þetta krydd í tilveruna. Því var ákveðið að halda áfram að þróa verkefnið og m.a. var opnunardögum nú fjölgað um helming og opið alla laugardaga og sunnudaga í desember og á Þorláksmessu. Áhugasömum bauðst bæði að selja varning endurgjaldslaust í sölukofum og að koma fram í garðinum til að skapa þar góða og lifandi stemningu.

Það er auðvitað þátttaka fólks sem skiptir sköpum í að skapa líf í garðinum og þar lögðu margir hönd á plóg. Hátt í 40 aðilar sóttu um að fá að selja margs konar varning í sölukofum og fjölmargir aðilar stóðu fyrir skemmtidagskrá í garðinum. Allir viðburðir voru eins konar „pop-up“ viðburðir vegna samkomutakmarkana og skutu upp kollinum af og til hvern opnunardag. Þeir sem komu fram eða stóðu fyrir viðburðum í garðinum voru eftirtaldir:

Brynja Ýr og Guðlaugur Ómar, DansKompaní, Hildur Hlíf Hilmarsdóttir, Jólaálfar, Jólabjöllurnar, Jólaseríurnar, Jólasveinar Aðventugarðsins, Leikfélag Keflavíkur, Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Unglingaráð Körfuknattleiksdeildar UMFN, Ungmennaráð Reykjanesbæjar, Transatlantic Crochet og auðvitað Grýla gamla. Þá settu leikskólarnir í Reykjanesbæ skemmtilegan svip á garðinn með fallega skreyttum leikskólalundi í skrúðgarðinum.

Öllum þessum aðilum færum við okkar bestu þakkir fyrir að skapa frábæra stemningu í Aðventugarðinum okkar.

Best skreytta húsið og fjölbýlishúsið

Rétt fyrir jól voru veittar viðurkenningar fyrir best skreyttu hús bæjarins. Fín þátttaka var í skemmtilegum jólaleik á vefsíðunni Betri Reykjanesbær þar sem íbúar gátu tilnefnt og greitt atkvæði þeim húsum sem þeim þóttu hvað best skreytt. Þó nokkur fjöldi húsa var tilnefndur og um 700 atkvæði voru greidd. Samkeppnin um efsta sætið reyndist afar hörð og var því tekin ákvörðun um að tvö hús hlytu viðurkenningu sem best skreyttu hús bæjarins en það eru Heiðarbrún 4 og Vallarás 3. Fyrir best skreytta fjölbýlishúsið bar Hornbjargið við Kirkjuveg 1 sigur úr býtum. Það var Húsasmiðjan í Reykjanesbæ sem styrkti verkefnið í formi gjafabréfa og eru henni færðar bestu þakkir fyrir framlagið.

Aðventugarðurinn okkar

Nú hefur Aðventugarðurinn verið starfræktur tvisvar sinnum og því má segja að enn hafi barnskónum vart verið slitið og ótal tækifæri sem bíða. Það sem bættist við frá fyrsta ári er að opnunardögum var fjölgað um helming og heilt skautasvell var tekið í notkun, fyrir tilstilli verkefnisins Betri Reykjanesbær, og er það stórkostleg viðbót við garðinn. Þá voru settar seríur á alla ljósastaura inni í skrúðgarðinum en það var Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis sem styrkti þá framkvæmd og eru þeim færðar sérstakar þakkir fyrir. Við viljum auðvitað halda áfram að þróa verkefnið og gera það betra frá ári til árs. Þar skiptir framlag okkar allra, einstaklinga, félaga og fyrirtækja máli og vonumst við eftir samstöðu um að vinna saman að því að búa til lítið jólaævintýri fyrir börn og fjölskyldur í heimabænum okkar í aðdraganda jóla.

Við viljum gjarnan fá að heyra ykkar skoðanir, vangaveltur og hugmyndir um áframhaldandi þróun Aðventugarðsins og einnig ábendingar sem geta hjálpað okkur í næstu skrefum. Slíkar ábendingar má senda á sulan@reykjanesbaer.is eða með því að taka þátt í örstuttri könnun hér.

Með kærum þökkum fyrir frábæra aðventu og óskum til ykkar allra um gæfuríkt komandi ár.