Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í Aðventugarðinn á síðasta opnunardegi hans á Þorláksmessu. Þar ríkti einkar góð stemning og gestir tóku virkan þátt í skemmtilegum uppákomum, gerðu góð kaup í sölukofunum og sumir skelltu sér á skauta á Aðventusvellinu.

Aðventugarðurinn var opinn allar helgar í desember ef frá er talin helgin 17. og 18. desember þegar þurfti að loka vegna veðurs og ófærðar. Í Aðventugarðinum ríkti notaleg jólastemning með lifandi tónlist, jólaljósum og jólaskreytingum en þar lögðu leikskólabörn bæjarins m.a. hönd á plóg og skreyttu fallega Leikskólalundinn sinn með heimatilbúnu jólaskrauti. Leikfélag Keflavíkur sá um ratleik Aðventugarðsins sem vakti mikla lukku en nýr leikur leit dagsins ljós hverja helgi þar sem börn voru beðin um að aðstoða jólasveinana við að finna týnda hluti í skrúðgarðinum.

Jólasveinar Aðventugarðsins og Grýla mamma þeirra heiðruðu gesti með nærveru sinni alla opnunardaga en einnig komu í heimsókn allskyns skemmtilegar fígúrur úr Ronju ræningjadóttur, risastór ísbjörn, snjóprinsessa og fjallamaðurinn hennar.

Í litla sviðskofanum var líf og fjör alla opnunardaga og þar komu fram fjölmargir skemmtikraftar og tónlistarfólk. Lalli töframaður, Brynja og Ómar, Kósýbandið, Jólabjöllurnar, Félagar úr Ronju ræningjadóttur og síðast en ekki síst Jólasveinar Aðventugarðsins sem tróðu upp á hverjum degi oft með Grýlu móður sína upp á arminn.

Jólakofarnir hafa verið stútfullir af allskyns handverki, jólavörum, matvælum, kakói, sykurpúðum og fleira góðgæti sem hefur verið dásamlegt að njóta í litlu sæluhúsunum okkar en um 40 fjölbreyttir söluaðilar sóttust eftir því að fá pláss í jólakofunum.

Um leið og íbúum eru færðar þakkir fyrir að leggja leið sína í Aðventugarðinn væri mikils virði ef þeir sem heimsóttu Aðventugarðinn tækju þátt í örstuttri nafnlausri könnun sem mun nýtast við að gera Aðventugarðinn enn betri á nýju ári https://forms.office.com/e/ciJqY9UzNT

Aðventusvellið verður opið um helgar út janúar að minnsta kosti en allar frekari upplýsingar má finna á adventusvellid.is