Áhugaverðar fornleifar á Safnahelgi á Suðurnesjum

Frá fornleifarannsókn í Höfnum
Frá fornleifarannsókn í Höfnum

Byggðasafn Reykjanesbæjar sýnir áhugaverðar fornleifar frá fornleifarannsókn á landnámsskála í Höfnum síðastliðið vor í Víkinagheimum í Reykjanesbæ á Safnahelgi á Suðurnesjum sem fram fer nú um helgina.

Dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur mun kynna rannsóknina kl. 11 á laugardaginn en rústir þess sem talið er vera landnámsskáli fundust árið 2002 fyrir aftan Kirkjuvogskirkju.
Skálinn í Höfnum er með elstu skálum sem fundist hafa á Íslandi og hafa verið aldursgreindir. Hægt verður að skoða þær fornleifar sem grafnar voru upp í Víkingaheimum. Afar áhugavert er að enginn útihús hafa komið í ljós í tengslum við skálann. Það hefur vakið miklar vangaveltur hjá fornleifafræðingunum, er hér um nýtt stig í landnámssögunni að ræða - eins konar landkönnunarbústaður líkt og fundust á Nýfundnalandi?

Fornleifarannsóknin er á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar sem fékk styrk til hennar frá Menningarráði Suðurnesja.

Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson hafi fengið land frá fóstbróður sínum Ingólfi Arnarssyni milli Vágs og Reykjaness, sem venjulega er túlkað sem landið sem Hafnahreppur náði yfir. Talið er mögulegt að hér sé því kominn bústaður Herjólfs, sem var langafi Bjarna Herjólfssonar sá sem fyrstur (ásamt áhöfn sinni) Evrópumanna leit meginland Ameríku augum.

Fornleifafræðistofan undir stjórn dr. Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings stjórnaði rannsókninni sl. vor en með þeim voru nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands í verklegu námi.
Frekari upplýsingar veita:
Dr. Bjarni F Einarsson s. 821-1395, Sigrún Ásta Jónsdóttir s. 865-6160


Dagskrá safnahelgi á Suðurnesjum