Nemendur í 6. bekk Akurskóla buðu Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur bæjarstjóra í heimsókn til að kynna fyrir henni verkefni sem þau höfðu unnið um úrbætur í heimabyggð.
Í verkefninu skoðuðu nemendur nærumhverfi sitt með gagnrýnum augum. Þau fóru í vettvangsferð með kennurum sínum, skráðu niður athuganir sínar, tóku myndir af því sem þeim þótti vel gert og því sem mætti bæta og ræddu síðan saman í hópum um það sem þau sáu. Þau skilgreindu helstu áskoranir, settu fram hugmyndir að úrbótum og útbjuggu glærukynningu þar sem lausnir þeirra komu fram.
Bæjarstjóri þáði boðið með þökkum og hlustaði á kynningar nemenda. Hún hrósaði þeim fyrir góða og vandaða vinnu og sagði það bæði fróðlegt og mikilvægt að heyra beint frá krökkunum hvað þeim finnst um sitt nánasta umhverfi og hvað væri hægt að gera betur.
Um var að ræða frábært framtak sem endurspeglar áhuga og ábyrgðarkennd þessara ungu íbúa Reykjanesbæjar. Við hlökkum til að fylgjast með þessum öflugu ungmennum halda áfram að vaxa og hafa áhrif á samfélagið og nærumshverfi sitt í framtíðinni.

Hægt er að skoða fleiri myndir á facebook síðu Reykjanesbæjar.