Allir með á aðventu

Jólatré
Jólatré

Aðventan nálgast nú óðfluga og því styttist í annan endann á árinu 2020. Líklega munu fæstir sjá eftir þessu fordæmalausa ári sem þó hefur fært okkur nokkurn lærdóm, meðal annars um erfiðleika og óvissu en ekki síður um samstöðu og samkennd og hversu miklu máli það skiptir að hlúa hvert að öðru og taka tillit til hvers annars. Nú þegar skammdegið skellur á er mikilvægt að við gerum okkar besta til að lýsa það upp, bæði hið innra með góðum samskiptum við vini og fjölskyldu og hið ytra með ljósum og seríum sem gleðja lága sem háa. Bæjaryfirvöld vilja hvetja bæjarbúa til að bíða ekki með ljósaskreytingar heldur byrja fyrr en seinna að láta ljós sitt skína. Einnig eru íbúar hvattir til að taka virkan þátt í þeirri dagskrá sem boðið verður upp á aðventu.

Aðventugarðurinn og jólakofar
Í ár hleypir bærinn af stokkunum nýju verkefni sem fengið hefur heitið Aðventugarðurinn. Segja má að það verkefni leysi af hólmi tendrun ljósanna á vinabæjartrénu frá Kristiansand en nú hefur formlegt vinabæjarsamstarf verið aflagt og því fáum við ekki sent tré í ár. Hugmyndin um Aðventugarðinn gengur út á að skreyta Ráðhústorgið og skrúðgarðinn með fallegum ljósaskreytingum og setja upp jólakofa fyrir íbúa til að selja varning tengdan jólum. Þetta verkefni kallar því á gott samstarf og virkni bæjarbúa og bæjaryfirvalda. Íbúar geta sótt um sölupláss í jólakofum og verður opnað fyrir umsóknir þann 10.  nóvember hér á vef Reykjanesbæjar.

Aðventugarðurinn verður formlega opnaður laugardaginn 5. desember og verður opinn alla laugardaga til jóla svo og á Þorláksmessu og má reikna með ýmsum óvæntum uppákomum alla opnunardaga.

Verkefnastyrkir
Í tengslum við Aðventugarðinn gefst áhugasömum einnig kostur á að sækja um styrki til viðburða eða verkefna á aðventunni. Verkefnin gætu t.d. verið uppákomur eða afþreying í Aðventugarðinum og geta styrkirnir hentað vel félagasamtökum í fjáröflun eða öðrum þeim sem vilja hrinda skemmtilegum hugmyndum í framkvæmd.

Hægt verður að sækja um styrki hér á vef Reykjanesbæjar frá 10.-20.nóvember og eru allir sem luma á skemmtilegum hugmyndum hvattir til að sækja um.

Fyrirvari um samkomutakmarkanir
Bæjaryfirvöld telja mikilvægt að halda í bjartsýnina eins og kostur er og hafa trú á því að á aðventunni verðum við komin á þann stað að hægt sé að halda úti þessari dagskrá en vera um leið tilbúin til að sveigja af leið og aðlaga okkur þeirri stöðu sem uppi er hverju sinni. Því er öll fyrrgreind dagskrá kynnt með fyrirvara um samkomutakmarkanir og sóttvarnir.

Nánari upplýsingar um Aðventugarðinn og verkefnastyrki á reykjanesbaer.is og í gegnum netfangið sulan@reykjanesbaer.is