Allir með hátíð og kynning

Tímamót urðu í Allir með verkefninu miðvikudaginn 7. desember 2022 þegar slegið var upp hátíð, frumsýnd myndbönd um verkefnið, nýtt markaðsefni kynnt og skrifað undir nýja samninga.

Eitt myndbandanna fylgir með þessari frétt en það greinir vel og skemmtilega frá meginmarkmiði og tilgangi verkefnisins með orðum og augum barna. Við hvetjum öll til þess að horfa á það. Alpha Agency er framsækið fyrirtæki í Reykjanesbæ sem hefur unnið mikið og gott starf fyrir Allir með og búið til fjölda myndbanda sem nýtast verkefninu vel til kynningar og fræðslu.

Kynningarmyndband

Allir með er samfélagsverkefni sem leggur áherslu á verndandi þætti í lífi barna. Allir íbúar, og þá sérstaklega börn, eru hvött til þess að vera félagslega virk í samfélaginu og fullorðnir leiðtogar í skipulögðu barnastarfi eru þjálfaðir til þess að vinna að sterkri heild sinna hópa og vinna þannig að inngildandi samfélagi. Allir með er fyrsta stigs forvörn sem vinnur gegn einelti, félagslegri útskúfun, fordómum, hvers kyns ofbeldi og hatursorðræðu.

Stofnaður verður Allir með skóli sem verður fræðsluvettvangur fyrir hugmyndafræðin verkefnisins Skólinn verður á vefsvæði sem fyrirtækið AVIA mun sjá um að setja upp og viðhalda. Fræðslufyrirtækið KVAN mun vinna með Reykjanesbæ að því að búa til og þróa fræðsluefni fyrir skólann og þjálfa nemendurna.

Með samningunum við KVAN og AVIA tryggir Reykjanesbær aðgengi að skólanum til ársins 2030, eða eins lengi og framtíðarsýn Allir með nær til. Nemendur skólans verða leiðtogar í skipulögðu barnastarfi; íþróttum, tómstundum og menningarstarfi, starfsfólk leik- og grunnskóla, starfsfólks í stuðningsþjónustu barna og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Til þess að Allir með nái því flugi sem því er ætlað þurfa allir að vera með. Því hefur verið skrifaður Allir með sáttmáli sem íbúar og aðrir þátttakendur í samfélagi Reykjanesbæjar eru hvattir til þess að skrifa undir. Með því einsetur fólk sér hlýlegt viðmót og alúð gagnvart öllum óháð öllu því sem máli getur skipt fyrir hvern og einn.

Reykjanesbæ er sérstaklega ánægjulegt að tilkynna nýtt samstarf við fyrirtækið atNorth. atNorth óskaði eftir því að styrkja verkefnið og gerast þannig Allir með vinnustaður og innleiðir nú hugmyndafræðina á sínum starfsstöðvum. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, aðstoðarforstjóri atNorth skrifaði undir Allir með vinnustaðasáttmála ásamt Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra. Af því tilefni sagði Eva Sóley eftirfarandi:

,,Margir þekkja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Aðalinntak þeirra er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Bara nafnið á verkefninu, Allir með, felur í sér sjálfbærni þar sem það er opið öllum börnum og öllum þeim sem eru þátttakendur í samfélaginu. Til þess að innleiða sjálfbæra þróun fyrir samfélagið allt, bæði af hálfu stjórnvalda og fyrirtækja hvaðanæva úr samfélaginu, þarf að fara metnaðarfullar leiðir og hugsa um umhverfið, fólkið og efnahaginn. Þess vegna styrkir atNorth Allir með og hvetur önnur fyrirtæki til þess að gera það sama. atNorth óskar Reykjanesbæ innilega til hamingju með Allir með

Reykjanesbær þakkar atNorh kærlega fyrir stuðninginn og hvetur alla bæjarbúa til þess að taka þátt í Allir með.

allir_med_framtidarsyn.pdf