Alþjóðadagur kennara 2020 - tökum forystu

Auglýsing fyrir Alþjóðadag kennara
Auglýsing fyrir Alþjóðadag kennara

Alþjóðasamtök kennara efna til stærsta netfundar kennara í sögunni á Alþjóðadegi kennara sem haldinn er hátíðlegur 5. október ár hvert.

Óhætt er að segja að mikið hefur mætt á kennurum á þessu ári og er markmið Alþjóðasamtaka kennara að leiða kennara frá öllum heiminum saman og veita þeim tækifæri til að fagna öllu því sem hefur áunnist og um leið tryggja að fókusinn sé á menntamálum nú á tímum heimsfaraldurs.

Árið 2020 er án efa eitt erfiðasta ár í skólasögunni. Yfir 90% nemenda heimsins hafa á einhverjum tíma faraldursins ekki getað sótt skóla, mislengi eftir atvikum en ljóst er að skólahald hefur orðið fyrir gríðarlegum áhrifum um heim allan.

Í frétt á vef Education International segir að kennarar hafi hvarvetna mætt hinum nýju áskorunum af miklum dug; þeir hafi unnið saman, fundið lausnir – allt til þess að tryggja, eins og kostur er, að börn og ungmenni njóti menntunar.

„Kennarastéttin hefur verið framúrskarandi á ótrúlega erfiðum tímum. Nú er tími til að standa saman því við búum yfir krafti til að breyta heiminum. Ef heimurinn á að læra af faraldrinum þá verða kennarar að vera í forystu. Við skulum hefja þá vegferð 5. október,“ segir David Edwards, forseti Alþjóðasamtaka kennara.

Yfirskrift kennaradagsins á alþjóðavísu er: Tökum forystu!

Fjölmennasti fjarfundur sögunnar

Útsending Alþjóðasamtakanna mun standa yfir í sólarhring þann 5. október. Þar verða flutt erindi þar sem fram koma leiðandi aðilar í menntamálum, fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, menntamálaráðherrar og þjóðhöfðingjar. Fundurinn hefst í Austurlöndum fjær og endar í Norður-Ameríku. 

Það er auðvelt að skrá sig til leiks á fjarfundinum en einnig gefst fólki kostur á að fylgjast einvörðungu með streyminu.

Um leið og við óskum kennurum okkar í Reykjanesbæ til hamingju með daginn þá hverjum við alla kennara til að nýta hann til samræðu um skólamál og vekja athygli á þeim mikilvægu störfum sem kennarar um allan heim gegna.