Ánægjuleg styrkveiting til leikskólans Tjarnarsels

Bók í hönd og þér halda engin bönd
Bók í hönd og þér halda engin bönd

Nýverið fékk leikskólinn Tjarnarsel styrk úr þróunarsjóði námsgagna fyrir þróunarverkefnið ,,Bók í hönd og þér halda engin bönd" til að þróa og útbúa handbók og myndband. Upphæðin er kr. 1.000.000.- og hefur verkefnisstjóri verkefnisins Árdís Hrönn Jónsdóttir tekið við styrknum f.h. leikskólans.

Verkefnið „Bók í hönd og þér halda engin bönd" miðar að því að lestur bóka verði hluti af daglegu starfi í leikskólanum, að sögustundum verði fjölgað og gæði við sögulesturinn aukin. Til að auka og efla orðaforða og skilning barna á merkingu orða á markvissan hátt er stuðst við sérstaka kennsluaðferð sem nefnist Orða-spjalls-aðferðin (e. Text talk). Samhliða því verður lögð áhersla á að nota bókalestur til þess að efla frásagnarhæfni og hlustunarskilning með auknum samræðum og markvissari lestrarstíl þegar lesið er fyrir börn. Þessar aðferðir verða einnig notaðar þegar börnum eru sagðar sögur og ævintýri og þeim kenndar þulur og vísur. Leitast verður við að flétta þessar aðferðir inn í annað málörvandi efni sem notað er í leikskólum. Í þessu sambandi verður einnig lögð áhersla á samstarf heimilis og leikskóla.

Nánar má lesa um verkefnið á vefsíðu leikskólans, reykjanesbaer.is/tjarnarsel