Ársreikningur Reykjanesbæjar 2022

Betri niðurstaða en gert var ráð fyrir.

Þriðjudaginn 16. maí var ársreikningur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar og tengdra stofnana samþykktur í seinni umræðu um ársreikninginn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Heildartekjur samstæðu A og B hluta voru 31,3 milljarður króna og rekstrargjöld 24,9 milljarðar króna. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði, skatta og hlutdeild minnihluta nam 6,4 milljörðum króna. Að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 1.084 milljónir króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir 355 milljóna króna halla á samstæðu sveitarfélagsins.

Heildartekjur A-hluta bæjarsjóðs námu 21,4 milljörðum króna. Rekstrargjöld bæjarsjóðs námu 19,4 milljörðum króna. Rekstarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 2 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 476 milljónir króna.

Áætlun ársins gerði hins vegar ráð fyrir 1,1 milljarða króna halla á bæjarsjóði og er þetta því mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Munar þar mest um hærri útsvarstekjur og framlög úr jöfnunarsjóði.

Eignir samstæðu A og B hluta nema 83 milljörðum króna og A-hluta bæjarsjóðs 43,8 milljörðum króna. Veltufjárhlutfall A og B hluta í árslok 2022 var 1,31 en var 1,19 í árslok 2021 og hefur því hækkað á árinu. Engar lántökur áttu sér stað á árinu 2022 og nema skuldir á hvern íbúa 1.330 þúsundum króna.

Skatttekjur og framlög úr jöfnunarsjóði námu 848 þúsund króna á hvern íbúa á árinu 2022 í stað 788 þúsund króna á árinu 2021.

Skuldaviðmið A hluta bæjarsjóðs skv. reglugerð 502/2012 er 90,25% og samstæðu A og B hluta 113,64%.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í síma 8252727