Bæjarstjóra afhent krafa frá 3156 kennurum á Íslandi

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri tekur við kröfu grunnskólakennara og ræðir við þá.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri tekur við kröfu grunnskólakennara og ræðir við þá.

Kennarar í Reykjanesbæ fylltu Ráðhúsið í dag á samstöðufundi, þar sem Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra var afhentur undirskriftarlisti með nöfnum 3156 grunnskólakennara á Íslandi. Kennarar krefjast þess að sveitarfélögin í landi „bregðist án tafar við því alvarlega ástandi sem skapast hefur í skólakerfinu. vegna hættulegra og rangra áherslna í kjarastefnu sveitarfélaga gagnvart grunnskólakennurum,“ eins og segir í kröfunni. Kjartan Már sagðist koma þessari kröfu til kjörinna fulltrúa. Sjálfur sagðist hann hafa tilheyrt þessari stétt, enda kenndi hann lengi við Tónlistarskóla Keflavíkur og skilji því kröfu þeirra.

„Laun kennara eru of lág og valda því með öðru að grunnskólakerfið er ekki lengur sjálfbært. Þeir kennarar sem nú starfa í grunnskólum njóta mun verri kjara en samanburðarhópar og raunar töluvert lægri kjara en almennt tíðkast á landinu. Nú eru samningar okkar lausir og hafa verið lengi. Mánuðum saman hafa sveitarfélögin haft tíma og tækifæri til að bregðast við bráðum vanda. Ekkert bólar á viðbrögðum og samninganefnd sveitarfélaga virðist enn ekki hafa umboð til neins nema að endurtaka leikinn frá því í sumar og bjóða áfram óboðleg kjör," segði m.a. í kröfu kennara.

Í kröfunni segjast kennarar aðeins hafa tvo kosti, að yfirgefa skólana og afhjúpa þannig endanlega skammsýni og hyskni sem einkennir störf sveitarfélaga á þessu sviði eða stíga fram, draga sveitarfélögin til ábyrgðar fyrir stöðunni sem upp er komin og krefjast viðbragða. „Með undirskrift okkar á þennan lista gerum við það síðarnefnda."

Annar samstöðufundur er áætlaður í Holtaskóla að viku liðinni.

Grunnskólakennarar fylltu Ráðhúsið á samstöðufundi

Frá samstöðufundi grunnskólakennara í Ráðhúsi í dag.