Bæjarstjórn lýsir eftir mótvægisaðgerðum

Ráðhúsið
Ráðhúsið

Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 1.9.2020 var sameiginleg bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar lögð fram.  

 Nú þegar fyrir liggja hertar sóttvarnaraðgerðir á landamærum Íslands, telur bæjarstjórn Reykjanesbæjar einsýnt að grípa verði til áhrifaríkra mótvægisaðgerða til stuðnings þeim aðilum sem verða fyrir þungu höggi vegna þeirra.

Atvinnuleysi mælist nú 19% í Reykjanesbæ og þá á eftir að að meta þær uppsagnir sem Isavia og Fríhöfnin hafa nú gripið til. Reikna má með að flestir þeirra 195 sem þar misstu vinnuna búi á Suðurnesjum.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvetur því ríkisstjórn Íslands til þess að ráðast nú þegar í aðgerðir til hjálpar þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem þessar aðgerðir bitna hvað harðast á.

Þrátt fyrir að það sé hægt að skilja þörfina fyrir slíkum sóttvarnaraðgerðum er ekki hægt að láta einstaka landshluta bera stærstan hluta þess efnahagslega skaða sem óneitanlega hlýst af þessum aðgerðum. Mótvægisaðgerðir verða tafarlaust að koma til.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill því hvetja ríkisstjórn Íslands og þingmenn svæðisins til dáða. Það eru fjölmörg atvinnuskapandi verkefni sem hægt er að ráðast í með litlum fyrirvara og nú ríður á að allir rói í sömu átt til þess að lágmarka þann skaða sem nú þegar er orðinn.“