Barnahátíð í Reykjanesbæ hafin

Barnahátíð fagnað
Barnahátíð fagnað

Í morgun hófst Barnahátíð í Reykjanesbæ í 9. sinn með setningu grunnskólahluta Listahátíðar barna, "Listaverk í leiðinni," á Icelandair hótelinu, Hafnargötu 57, að viðstöddum öllum nemendum 4. bekkja í Reykjanesbæ. Þessi viðburður er sá fyrsti í röð yfir 50 viðburða sem í boði verða á hátíðinni sem nær hámarki um helgina með fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Þess má geta að allir viðburðir á hátíðinni eru fjölskyldum að kostnaðarlausu. Dagskrána og nánari lýsingar á viðburðum má skoða í heild sinni á vefsíðunni barnahatid.is. Þá eru upplýsingar settar inn jafnt og þétt á facebooksíðu Reykjanesbæjar.

Fréttatilkynning:

Skessan í hellinum býður til Barnahátíðar í níunda sinn í  fjölskylduvænum Reykjanesbæ
7. - 11. maí.

Allir eru með
„Barnahátíð í Reykjanesbæ hefst með látum á miðvikudag,“ segir Guðlaug María Lewis verkefnisstjóri hátíðarinnar. „Það frábæra er að allir eru með,“ en þar á Guðlaug við alla  6 grunnskóla bæjarins, alla 10 leikskólana, Tónlistarskólann, dansskólana tvo og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Bærinn er smekkfullur af skapandi börnum.“ Skólarnir eru allir þátttakendur í glæsilegri Listahátíð barna sem myndar hryggjarstykkið á sérstakri barnahátíð sem nær hámarki um næstu helgi með fjölbreyttum viðburðum, smiðjum og skemmtilegheitum sem börnum og fjölskyldum stendur til boða þeim að kostnaðarlausu.

Þér er boðið í afmæli! - Ekki missa af glæsilegri listahátíð barna
Grunnskólarnir sýna brot af því besta úr listgreinastarfi í vetur, undir heitinu „Listaverk í leiðinni,“ á vel völdum stöðum í bæjarfélaginu, gestum og gangandi til yndisauka. Leikskólarnir bjóða upp á stóra sameiginlega sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar sem ber titilinn „Afmæli“ í tilefni þess að Reykjanesbær fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Skrautlegar veitingar, borðbúnaður og afmælisgjafir af flottustu gerð úr verðlausu efni munu gleðja gesti á þessari glæsilegu sýningu leikskólabarnanna. Á föstudag fá svo leiklistarhæfileikarnir að njóta sín á Hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa í Hljómahöll þar sem úrval árshátíðaratriða úr öllum grunnskólunum verða sýnd fyrir fullu húsi.

Ekki gleyma bangsanum heima
Að sögn Guðlaugar nær Barnahátíðin hápunkti á laugardag og sunnudag þegar gestum er boðið heim á margs konar viðburði tileinkaða börnum og fjölskyldum þeirra. Á laugardag fer meginþungi dagskrárinnar fram við Víkingaheima. Landnámsdýragarðurinn verður opnaður, pylsur, tónlist, hestar, andlitsmálning og alvöru víkingar eru meðal þess sem mun gleðja börnin. Leikfangamarkaður barnanna fer fram í tjaldi við Víkingaheima en þar gefst börnum kostur á að gerast kaupmenn part úr degi. Boðið verður upp á sirkussmiðju og sýningu, börnin geta hannað víkingaklæði á bangsann sinn og skoðað slökkviliðsbíla á nýrri sýningu. Deginum lýkur með búningaballi með Ávaxtakörfunni í 88 húsinu þar sem nýr ungmennagarður var tekinn í notkun um liðna helgi með hoppudýnu, aparólu, minigolfi, hjólastólarólu og leiktækjum.

Skessa, tröll, galdrakallar og nornir. Er það furða þótt karamellum rigni?
Á sunnudeginum fer megin dagskráin fram við Duushúsin, menningar- og listamiðstöð, þar sem listahátíð barna er í fullum gangi. Skessan er í hátíðarskapi og býður upp á lummur í hellinum sínum ásamt Fjólu tröllastelpu. Tívolítæki verða á Keflavíkurtúni, afmælisleikjasmiðja, galdrakalla og nornasmiðja, kraftakeppni krakka og þá hljóðar veðurspáin upp á karamelluregn. Deginum lýkur svo á skemmtun með Góa í Bíósal.

Dagskrána í heild sinni, með tímasetningum, staðsetningum og nánari upplýsingum er að finna á vefsíðunni barnahatid.is. með fyrirvara um breytingar t.d. vegna veðurs. Frítt er á alla viðburði Barnahátíðar.

Reykjanesbær býður ykkur hjartanlega velkomin heim!