Barnahátíð í vændum - Vertu með!

Myndin af þessari glöðu stúlku á forsíðunni er af grunnskólanema sem er að undirbúa þátttöku sína á Listahátíð barna með þátttöku í verkefninu Listaverk í leiðinni.

Barnahátíð í maí

Skessan í hellinum býður til Barnahátíðar í Reykjanesbæ í 8. sinn dagana 11.-12. maí n.k. Hátíðin er haldin Reykjanesbæ á hverju vori með viðamikilli dagskrá fyrir börn og unnin af börnum. Markhópur hennar eru leikskólabörn, börn á yngsta stigi grunnskólans og auðvitað fjölskyldan öll. Markmiðið er að sýna hversu mikið og frjótt starf er unnið með börnum í fjölskylduvænum Reykjanesbæ og skapa tækifæri til skemmtilegra samverustunda fyrir fjölskyldur.

Undirbúningur í höndum margra

Undirbúningur er í fullum gangi og ýmsir dagskrárviðburðir óðum að taka á sig mynd. Skessan verður í hátíðarskapi, Listahátíð barna verður glæsileg sem endranær og Landnámsdýragarðurinn verður opnaður auk margra annarra viðburða.

Sífellt fleiri koma að undirbúningi og þátttöku í Barnahátíð og þess má geta að í ár eru allir grunn- og leikskólar bæjarins virkir þátttakendur í hátíðinni. Sama er að segja um söfnin og ýmsar fleiri stofnanir bæjarins.  Þannig viljum við líka að hátíðin þróist, fyrir börnin og með börnunum.

Gerum góða hátíð betri með breiðari þátttöku

Markmiðið er það að hátíðin þróist líkt og Ljósanótt, á þann veg að allir vilji vera með bæði íbúar, félagasamtök og  fyrirtæki í bænum og að við sameinumst öll um að búa til frábæra hátíð með börnin okkar að leiðarljósi.

Því eru allir áhugasamir hvattir til að gera vart við sig. Það geta verið hugmyndir eða fullskapaðir dagskrárliðir eða hvaðeina annað sem ykkur dettur í hug. Dagskráin er enn opin og alls ekki of seint að bæta við dagskrárliðum. Hafið samband á barnahatid@reykjanesbaer.is

Reykjanesbær - fjölskylduvænn bær!