Barnahátíð Reykjanesbæ sett í morgun

Frá setningu Barnahátíðar í fyrra. Dúfu sleppt.
Frá setningu Barnahátíðar í fyrra. Dúfu sleppt.

Barnahátíð í Reykjanesbæ var formlega sett í morgun þegar Árni Sigfússon bæjarstjóri opnaði glæsilega listahátíð barna í Duushúsum og sleppti í framhaldi af því bréfdúfum á Keflavíkurhólnum með boð til allra barna landsins á barnahátíðina.

Öll elstu börn leikskólanna voru mætt í Duushús í morgun til að vera viðstödd opnun listahátíðar barna sem í ár ber yfirskriftina Hafið. Þar sungu þau undurfallega söngva um hafið og skoðuðu að því loknu sýninguna. Í listasal hefur verið skapaður ævintýraheimur, neðansjávarveröld með verkum eftir öll leikskólabörn bæjarins. Í bíósal eru myndlistarverk, hugleiðingar barnanna um hafið og listasmiðja sem stendur öllum bæjarbúum opin meðan á hátíðinni stendur. Ekki var annað að sjá en bæði börn og fullorðnir hefðu heillast af skrautlegum heimi hafsins og ekki síður tignarlegum dúfunum þegar þær tóku flugið til himins með skilaboðin sín í farteskinu.

Dagskrá hátíðarinnar stendur fram til 25. apríl og er unnin í samstarfi við íþrótta- og tómstundafélög, sem og menningarfélög og stofnanir í Reykjanesbæ.

Dagskrá í dag
Opnun ljósmyndasýningar barna - úrslit í ljósmyndamaraþoni kynnt: bókasafn kl. 17
Úrslit í ræðukeppni grunnskólanna í Stapa kl. 20:00

Helstu dagskráratriði

Listahátíð barna og listasmiðjur, ný dýrasýning í Víkingaheimum, víkingaleikir og víkingabúningar, ævintýri hafsins þar sem ýmis sjávardýr verða til sýnis við höfnina, sjóræningjar og Svabbi sjóari segir lygasögur af vatnaskrímslum. Ratleikur fyrir alla fjölskylduna, dorgkeppni á Keflavíkurbryggju, hlaupakeppni, barnaleikhús, risakarnival og margt fleira.
Skessan í hellinum er í hátíðarskapi og býður gestum hátíðarinnar lummur en þar mun Fjóla vinkona hennar líta við ásamt barnakórum.
Listasmiðjur barna og flugdrekagerð
Landnámsdýr í Víkingaheimum - ný sýning sem opnar á sumardaginn fyrsta. Í víkingaheimum verður sprell og fjör fimmtudag og laugardag þar sem hægt verður að taka þátt í ýmsum víkingaleikjum.

Sjá dagskrá og myndir á barnahatid.is