Birgitta Ína þótti fanga stemmningu Ljósanætur best

Frá verðlaunaafhendingu. Sigurvegarar og fulltrúar þeirra ásamt Guðlaugu Lewis úr dómnefnd, Guðbjör…
Frá verðlaunaafhendingu. Sigurvegarar og fulltrúar þeirra ásamt Guðlaugu Lewis úr dómnefnd, Guðbjörgu Ingimundardóttur formanni menningarráðs og Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra.

Sigurvegari í Instagramleik Ljósanætur og Símans er Birgitta Ína Unnarsdóttir. Önnur verðlaun hlaut Katrín A. Sandholt og Linda D. Ragnarsdóttir í því þriðju. Sigurlaun Birgittu Ínu voru Beoplay A2 hátalari frá Bang & Olufsen sem Síminn gaf, auk bakboka til allra. Katrín hlaut gjafabréf fyrir tvo á veitingastaðinn Vocal 

Yfirskrift Instagramleiks Ljósanætur og Símans sem fram fór nýliðna Ljósanótt var „Fangaðu Ljósanótt“. Leikurinn gekk vel og um 150 myndir af öllu tagi skiluðu sér inn undir #Ljosanott2017. Að hátíðinni lokinni valdi dómnefnd 3 sigurmyndir. Dómnefndin var skipuð ljósmyndaranum OZZO, fréttaljósmyndaranum og blaðamanninum Hilmari Braga Bárðarsyni og fulltrúa Ljósanæturnefndar Guðlaugu Maríu Lewis og var hún einhuga í niðurstöðu sinni.

Um sigurvegara

Birgitta Ína Unnarsdóttir er alin upp í Garðinum. Hún segist hafa byrjað að taka eftir umhverfi sínu um 10 ára aldurinn og fékk þá lánaða myndavél hjá föður sínum sem hafði verið duglegur að mynda. Um 12-13 ára aldurinn hafði hún safnað sér fyrir svartri Panasonic filmuvél sem hún keypti í Stapafelli. Ljósmyndun hefur alltaf heillað Birgittu og hún lærði framköllun uppi á lofti í Gerðaskóla og fór í starfskynningu til Sollu í Nýmynd 2 ár í röð. Það fór svo að hún skellti sér í grunnnám ljósmyndunar í Tækniskólanum og útskrifaðist með burtfararpróf 2012. Sjálf lýsir hún sigurmyndinni einstaklega vel: „Að geta fangað augnablik sem segir þér sögu án orða er það sem ég vil gera. Þegar ég las í Víkurfréttum um þessa áskorun að ná Ljósanótt á mynd fannst mér það spennandi. Ég naut laugardagskvöldsins niður í bæ í faðmi fjölskyldu og vina og tók myndir af því sem ég upplifði. Myndin sem ég sendi inn er að mínu mati mjög lýsandi fyrir hátíðina og kvöldið þar sem hún sýnir á sama tíma lýsinguna í berginu sem er jú upphafið af Ljósanótt og síðan fólk að njóta sýningarinnar, samveru og lífsins. Um þetta snýst þetta allt saman er það ekki?“

Katrín A. Sandholt er  búsett í Reykjanesbæ. Ljósmyndun hefur verið áhugamál hennar síðustu 10 ár en það er einungis stutt síðan að hún fór að nota Instagram reglulega. Katrín segir að myndin hafi ekki verið úthugsuð en hún segist heilluð af tívolítækjum og ljósum og myndin af syni hennar um borð í einu slíku tæki fangar vel hraðann og fjörið sem þeim fylgir. Það er nokkuð skemmtilegt að Katrín vissi ekki að hún væri að taka þátt í keppni en rambaði á rétta „hashtaggið“ þegar hún deildi myndinni. Það kom henni því skemmtilega á óvart að hún hefði unnið til verðlauna í leiknum. Katrín segist elska Ljósanótt og henni finnist einmitt gaman að ná myndum af stemningu.

Þriðju verðlaun hlaut Linda D. Ragnarsdóttir fyrir fallega flugeldamynd með skuggamynd af manneskju í forgrunni. Linda sem er fertug þriggja barna móðir fædd í Keflavík en búsett á Höfn segist elska að taka myndir og segir að hún sé stundum kölluð „túristinn“ af þeim sem hana þekkja. Hún segist hafa gaman af að taka „silhouette“ myndir og notar sólarlagið mikið en í þetta sinn komu flugeldarnir í staðinn fyrir sólina.

Myndirnar má sjá á Instagram undir #Ljosanott2017