Bleikur október

Hlið inn í Reykjanesbæ baðað bleikum lit.
Hlið inn í Reykjanesbæ baðað bleikum lit.

Framundan er það sem kallað er “bleikur október”; mánuður sem helgaður er baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Reykjanesbær mun leggja sitt af mörkum m.a. með því að lýsa upp nokkrar byggingar með bleikum lit og minna þannig á átakið.

Því miður þekkja allt of margir áfallið sem fylgir því að einhver náinn greinist með krabbamein. Þótt krabbameinin séu jafn misjöfn og þau eru mörg, og meðferðir og lífslíkur einnig, eru slíkar fréttir alltaf reiðarslag fyrir þá sem lenda í því að greinast. Langflestir fara að endur forgangsraða lífi sínu við slíkar fréttur. Hlutir og þættir í lífinu, sem áður skiptu miklu máli, fara allt í einu að vega ansi létt. Hvort að það náðist að mála þakið í sumar eður ei skiptir allt í einu engu máli. Á sama hátt fara þættir, sem áður höfðu verið aftarlega í forgangsröðinni, að vega mjög þungt. Samvera og samskipti við fjölskyldu og vini er þar oftast efst á blaði. Fólk áttar sig á því að þegar öllu er á botninn hvolft er það það sem skiptir mestu máli; hvernig við verjum tímanum með og í þágu þeirra sem við elskum mest.

Það mætti því líka nota bleikan október til þess að minna okkur á þessa þætti. Ekki bíða með að bæta samskipti við fjölskyldu og vini þar til eitthvað hræðilegt gerist. Byrjum strax að lifa hvern dag eins og hann væri sá síðasti. Heimsækjum þá sem við elskum en höfum ekki gefið okkur nægilegan tíma til að gera hingað til af því að við höfum verið svo upptekin við miklu “merkilegri” hluti. Tökum utan um þá og segjum þeim hvað við elskum þá. Fyrirgefum þeim sem við höfum átt eitthvað óuppgert við. Náum sáttum, fögnum lífinu og verum þakklát fyrir allt það sem okkur hefur verið gefið.

Kær kveðja

Kjartan Már Kjartansson
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar