Börnin sett í fyrsta sæti

Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum og María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaver…
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum og María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar undirrituðu samstarfssamninginn í gær. Með þeim á myndinni eru lögreglumennirnir Kristján Geirsson og Bjarney S. Annelsdóttir og starfsmenn barnaverndar þau Henný Úlfarsdóttir, Jóhanna María Ævarsdóttir, Kolbrún Þorgilsdóttir og Þórður Þór Sigurjónsson. Ljósmynd Víkurfréttir

Í gær gerðu Velferðarsvið Reykjanesbæjar og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum með sér samstarfssamning vegna forvarnarverkefnisins ÁBYRG SAMAN. Með verkefninu er unnið út frá heimsmarkmiði 3: Heilsa og vellíðan. Í verkefninu er lögð áhersla á að efla forvarnir og beita snemmtækri nálgun til að mæta áhættuhegðun hjá börnum

Velferðarsvið Reykjanesbæjar og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að bregðast strax við vanda barns þegar afskipti lögreglu verða af barni, sem stundar áhættuhegðun. Þannig megi koma frekar í veg fyrir endurtekin afskipti. Barnavernd Reykjanesbæjar sendir að jafnaði bréf til foreldra  30 barna ár hvert vegna tilkynninga sem berast frá lögreglu og ekki er talin þörf á að hefja könnun í málinu. Að sögn Maríu Gunnarsdóttur forstöðumanns barnaverndar hefur tilkynningum til lögreglu vegna áhættuhegðunar barna fjölgað það sem af er ári og því sé mikilvægt að bregðast strax við vandanum.

„Markmið með verkefninu er að gera foreldrum og barni grein fyrir barnaverndartilkynningu frá lögreglu, veita foreldrum og barni tækifæri til að eiga samtal um tilkynninguna. Einnig að veita fræðslu og upplýsingar um úrræði sem þeim stendur til boða og draga úr áhættuhegðun hjá barni. Í stað þess að barnavernd sendi foreldrum bréf þá mun fulltrúi frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum og barnavernd Reykjanesbæjar bjóða foreldrum og barni upp á ábyrgt samtal þegar fyrstu afskipti lögreglu verða af barni vegna áhættuhegðunar og ekki er um að ræða barnaverndarmál. Með þessu verklagi er lögð áhersla á að bregðast strax við vanda barns og sýna sameiginlega ábyrgð til að draga úr áhættuhegðun hjá barni. Með þessu nýja verklagi tökum við höndum saman, sýnum ábyrgð og setjum börnin í fyrsta sæti,“ segir María.

Í samningi lögreglu og velferðarsviðs er unnið út frá heimsmarkmiði 3, Heilsu og vellíðan