Breytingar á rekstri leikskólanna Akurs og Vallar

Frá árinu 2007 hefur Hjallastefnan séð um rekstur leikskólanna Akurs og Vallar með þjónustusamningum við Reykjanesbæ. Nú hefur Hjallastefnan tekið þá ígrunduðu ákvörðun að segja upp þessum samningum frá og með 1. desember 2025. Þessar breytingar á rekstri leikskólanna eru gerðar í góðri samvinnu, af virðingu og með það að markmiði að skapa rými fyrir ný tækifæri í skólastarfi bæjarins.

Hjallastefnan hefur átt stóran sess í samfélaginu okkar og mun hugmyndafræði hennar áfram vera hluti af Reykjanesbæ í gegnum sjálfstætt starfandi Hjallastefnuskóla.

Rekstur leikskólans Akurs færist yfir til Sigrúnar Gyðu Matthíasdóttur, núverandi leikskólastýru, frá og með 1. ágúst 2025. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á daglegu skólastarfi sem börn og foreldrar verða vör við.

Hjallastefnan er sprottin upp úr róttækri jafnréttishugmyndafræði sem var ekki síst til þess fallin að valdefla skólastjórnendur. Það er því í anda Hjallastefnunnar að sjá stjórnanda taka yfir rekstur síns skóla.

Reykjanesbær mun taka við rekstri leikskólans Vallar frá 1. október 2025. Skólinn verður rekinn í samræmi við aðra leikskóla sveitarfélagsins og lögð verður áhersla á faglega og vel skipulagða yfirfærslu í náinni samvinnu við Hjallastefnuna, stjórnendur og starfsfólk leikskólans. Ánægjulegt er að segja frá því að Hulda Björk Stefánsdóttir leikskólastýra á Velli mun áfram leiða skólastarfið.

Þegar horft er til hagsmuna barna og barnafjölskyldna er það sameiginleg sýn aðila, að í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á samfélagi sveitarfélagsins, að rekstur fjölmenningarskóla líkt og Völlur er sé í höndum Reykjanesbæjar.

Reykjanesbær leggur ríka áherslu á skýra upplýsingagjöf til starfsfólks, foreldra og annarra hagsmunaaðila varðandi næstu skref. Markmið sveitarfélagsins er að tryggja stöðugleika í skólastarfinu og velferð barnanna sem sækja leikskólana.

Reykjanesbær þakkar Hjallastefnunni fyrir farsælt, gefandi og metnaðarfullt samstarf undanfarin ár. Á þessum tíma hefur fjöldi barna og fjölskyldna notið góðs af skólastarfi sem byggir á skýrum gildum, uppbyggilegri nálgun og góðum samskiptum. Við erum samstíga og lítum á þessar breytingar sem tækifæri til áframhaldandi framfara og þróunar á þjónustu við börn og barnafjölskyldur í Reykjanesbæ. Á sama tíma vill Hjallastefnan koma á framfæri þökkum fyrir gott og gefandi samstarf.