Brjáluðu BAUNafjöri lokið

Það er óhætt að segja að BAUNin hafi sprungið út á nýafstaðinni Barna- og ungmennahátíð sem lauk á sunnudag. Bærinn hreinlega iðaði af fólki á ferð og börnum með BAUNabréf í hönd, rokspennt að taka þátt í hinum ýmsu verkefnum og fá að launum stimpil í bréfið sitt.

Alls kyns þrautastöðvar, stimpilstöðvar og viðburðastöðvar stóðu þátttakendum til boða, þá 10 daga sem hátíðin stóð. Yfirfullt var á þeim flestum og skipti þá engu máli hvort þær voru á laugardagsmorgni eða mánudagseftirmiðdegi svo sjá má að börn og þeirra fólk tóku BAUNinni heldur betur fagnandi. Stofnanir Reykjanesbæjar lögðu sitt af mörkum til hátíðarinnar og ljóst að dauðafæri er hjá þeim að bjóða upp á reglulega viðburðadagskrá fyrir yngstu íbúa bæjarins og aðstandendur þeirra.

Í ár var líka í fyrsta skipti boðið upp á BAUN+ sem hafði að markmiði að virkja nemendur í 8.-10. bekk og verður gaman að sjá hvernig það tókst til þegar niðurstöður úr QR kóða leik þeirra verða skoðaðar.

Þátttökuverðlaun
Framundan er að draga úr innsendum BAUNabréfum og er til mikils að vinna en í aðal vinning eru tvö glæsileg trampólín í boði Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ og Reykjanesbæjar auk smærri vinninga. Tekið verður við BAUNabréfum til 18. maí í Duus safnahúsum, Bókasafni Reykjanesbæjar – Stapasafni og í Sundmiðstöðinni Vatnaveröld. Dregið verður úr innsendum bréfum í beinu streymi á facebooksíðu BAUNar föstudaginn 23. maí kl. 14. Þátttökuseðlinum má skila óháð því hversu mörgum stimplum var safnað.

Þátttakendur í BAUN+ eiga einnig von á góðu enda geta þeir unnið geggjað Elvita partybox og Soundcore Boom 2 vatnshelda hátalara sem munu skapa frábæra stemningu hjá nýjum eigendum í sumar. Þessir vinningar eru í boði Tölvulistans/Heimilistækja í Reykjanesbæ og Reykjanesbæjar. Dregið verður úr innsendum skráningum laugardaginn 24. maí á facebooksíðu BAUNar.

Markmið hátíðarinnar eru þau að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og jafnframt að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Það er von okkar að það hafi tekist og að börn og fjölskyldur hafi átt frábærar stundir saman á BAUN.

Ef fólk vill koma á framfæri athugasemdum eða öðru sem við kemur BAUN þá er snjallt að senda línu á menningarfulltrui@reykjanesbaer.is