Bygging nýs leikskóla í Hlíðarhverfi

Samkomulag um byggingu 120 barna leikskóla í Hlíðarhverfi

Miðland, sem er í eigu BYGG hefur fengið heimild til að byggja allt að 986 íbúðir í Hlíðarhverfi. Aukningin mun fyrst og fremst verða í 3. og síðasta hluta hverfisins sem mun liggja sunnan Þjóðbrautar. Áður þarf að gera nýtt deiliskipulag fyrir hverfið í heild.

Á þessari stundu er óvíst hvenær framkvæmdir 3. hluta hefjast en framkvæmdum í 1. hluta er lokið og framkvæmdir í 2. hluta eru í gangi. Reykjanesbær tekur að sér að kosta og breyta efsta hluta Þjóðbrautar, frá núverandi hringtorgi á mótum Skólavegar og Þjóðbrautar og að Flugvöllum, en BYGG mun annast verkið fyrir Reykjanesbæ. Ef Miðland ákveður að setja jarðgöng undir þennan hluta Þjóðbrautar til að tengja saman 2. og 3. hluta hverfisins mun fyrirtækið kosta þá framkvæmd að fullu.

Vegna stækkunar hverfisins mun BYGG/Miðland byggja 120 barna leikskóla sem er hannaður af JEES arkitektum fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Leikskólinn verður staðsettur í 2. hluta, sem nú er í uppbyggingu, og verður honum skilað á byggingarstigi 2 skv. ÍST 51 (fokheldum). Auk þess mun BYGG/Miðland ganga frá bílastæðum og gangstéttum við leikskólann að fullu.

Líklegt er að þegar hverfið verður fullbyggt þurfi að vera búið að byggja þar annan leikskóla og grunnskóla. Nú förum við í að reyna átta okkur á þeirri þörf og undirbúa þær framkvæmdir.

Reykjanesbær þakkar forsvarsmönnum BYGG fyrir gott samstarf við gerð þessa samkomulags. Það muni koma öllum aðilum vel þ.e. íbúum hverfisins, Reykjanesbæ og BYGG/Miðlandi.