Kolefnisförgun í Helguvík

Carbfix prófar sjó til steinrenningar á CO2 í Helguvík

Carbfix mun á næstunni hefja tilraunir með að nota sjó til að steinrenna CO2 í berglögum neðanjarðar. Borholan sem notuð verður í þessu skyni verður í Helguvík í Reykjanesbæ. Verkefnið nefnist Sæberg (e. CO2SeaStone) og er samstarfsverkefni Carbfix og ETH Zurich, Háskóla Íslands, ÍSOR, háskólanna í Genf og Lausanne og University College í London.

Það er hluti af stærra tilraunaverkefni, DemoUpCARMA, sem leitt er af ETH Zurich og gengur út á að prófa og þróa nokkrar mismunandi tæknilausnir til að fanga, nýta, flytja og farga CO2 frá Sviss, ýmist til að ná fram neikvæðri losun eða minnka hana með því að fanga frá iðnaði sem ekki á gott með að draga úr sinni losun.

Á meðal lausna sem DemoUpCARMA er að skoða er að fanga CO2 frá iðnaði, flytja það til Rotterdam og þaðan með skipi til Íslands, þar sem það verður leyst upp í sjó fyrir niðurdælingu og steinrenningu með Carbfix aðferðinni. Fyrsti gámurinn með 20 tonn af CO2 frá Sviss kom til landsins nýverið, en alls er gert ráð fyrir að Carbfix fargi 1.000 tonnum í þessum tilraunafasa sem varir í eitt.

Verkefnið er styrkt af Eurostars, Rannís, og orku- og umhverfismálaskrifstofum svissneskra stjórnvalda. Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu með því að veita Carbfix aðstöðu í Helguvík. Þá styðja Samskip verkefnið með flutningi á CO2 í gámum frá Rotterdam til Íslands.

Gerir kleift að beita Carbfix-aðferðinni mun víðar

Háskóli Íslandi og Carbfix hafa nú þegar sýnt fram á það á tilraunastofu að sjór hefur sömu virkni og ferskvatn þegar kemur að Carbfix-tækninni. Nú verður það í fyrsta sinn reynt á stærri skala með niðurdælingu. Stefnt er að því að borholan í Helguvík verði tilbúin á haustmánuðum og niðurdæling hefjist í kjölfarið.

Þótt víða í heiminum séu góðar aðstæður til að beita Carbfix-tækninni er aðgangur að ferskvatni sums staðar takmarkandi þáttur. Takist að nota sjó í stað ferskvatns mun það fjölga verulega þeim svæðum þar sem hægt er að beita tækninni. Til að mynda er basalt undir stórum hluta sjávarbotns jarðar.

Eitt mikilvægasta rannsóknarverkefni Carbfix

„Sæberg er eitt mikilvægasta rannsóknarverkefnið sem Carbfix vinnur að um þessar mundir. Þó að hægt sé að beita tækni okkar víða um heiminn myndi það auka möguleika hennar verulega að geta notað sjó í stað ferskvatns. Við eigum mjög gott samstarf við fjölmarga aðila um verkefnið og erum þakklát bæði Reykjanesbæ fyrir að veita því aðstöðu í Helguvík og Samskipum fyrir að greiða fyrir flutningnum,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.

„Við erum stolt af því að fá tækifæri til að vera þátttakendur í svo metnaðarfullu og mikilvægu verkefni eins og Sæberg er og stuðlar að áframhaldandi þróunarstarfi Carbfix. Kolefnisförgun er einn þeirra þátta sem er nauðsynlegur í baráttunni við loftslagsbreytingar og mun hjálpa til við að ná þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér um kolefnishlutleysi. Við hjá Reykjanesbæ höfum mikinn metnað til að gera vel þegar kemur að loftslagsmálum og munum halda áfram að vinna markvisst í að leggja okkar af mörkum á næstu árum og áratugum í átt að kolefnishlutleysi,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

„Við erum hæstánægð með tækifærið til að styðja verkefnið Sæberg. Verkefnið fellur fullkomlega að umhverfis- og sjálfbærnimarkmiðum Samskipa sem hafa gripið til markvissra aðgerða til að lágmarka umhverfisáhrif eigin starfsemi og styðja að auki við margvísleg verkefni þar sem leitað er leiða til að draga úr útblæstri og efla umhverfisvernd,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Nánar um Carbfix:

Carbfix hefur í tíu ár, eða allt frá árinu 2012, fangað CO2 frá Hellisheiðarvirkjun, blandað það ferskvatni og dælt ofan í basaltberglög þar sem það umbreytist í stein með náttúrulegum efnahvörfum. Hefur sú aðferð til varanlegrar og öruggrar förgunar á CO2 vakið heimsathygli. Fyrr í sumar var tilkynnt að verkefni Carbfix um Coda Terminal, móttöku- og förgunarstöð fyrir CO2 í Straumsvík, væri eitt af 17 verkefnum sem hljóta styrki upp á alls 1,8 milljarða frá Nýsköpunarsjóði Evrópu (Innovation Fund).

 

Heimasíða Carbfix