Djúpgámalausnir í Reykjanesbæ

Myndin sýnir frá því þegar nýju djúpgámarnir voru losaðir í fyrsta skiptið en hún gefur glögga mynd…
Myndin sýnir frá því þegar nýju djúpgámarnir voru losaðir í fyrsta skiptið en hún gefur glögga mynd af því hvernig djúpgámarnir líta út í heild sinni.

Svokallaðar djúpgámalausnir hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum. Þeir þykja hentug lausn, sérstaklega þar sem pláss er af skornum skammti, og einstaklega snyrtilegir á að líta. Þessa lausn má finna víðsvegar um Evrópu auk þess sem þeir hafa verið settir upp í nýjum hverfum á höfuðborgarsvæðinu.

Djúpgámar eru, eins og nafnið gefur til kynna, gámar sem staðsettir eru að mestu undir yfirborði jarðar og ofanjarðar sést aðeins efsti hlutinn. Gámarnir geta verið mismunandi að stærð undir yfirborðinu og eins er hægt að fá þá tvískipta, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Losun gámanna er auðveldari í samanburði við hefðbundnar tunnur en ekki er þörf á að draga tunnur sem getur verið erfitt t.d. í miklum snjóþunga.

Mikill kostur er að úrgangurinn er allur neðanjarðar, og þar af leiðandi kaldur, þannig eru minni líkur á hinum ýmsu sníkjudýrum, eins og t.d. flugum. Einnig er auðvelt að aðgangsstýra gámunum þannig að eingöngu íbúar hafi að þeim aðgang en gera má ráð fyrir að það verði góður kostur þegar mengunarbótareglan (borgað þegar hent er) verður að fullu innleidd.

Nú hafa fyrstu djúpgámarnir litið dagsins ljós hér í Reykjanesbæ og eru þeir staðsettir við fjölbýlishús í Innri Njarðvík. Gámarnir eru þrír talsins en flokkarnir fjórir, eins og gert er ráð fyrir í nýrri löggjöf um meðhöndlun úrgangs. Umfjöllun um hana má sjá hér. Gert er ráð fyrir að þessi lausn muni færast í aukana hér í Reykjanesbæ á næstu misserum.

Hér á meðfylgjandi mynd má sjá uppsetningu djúpgámanna sem komnir eru upp í Reykjanesbæ.

Djúpgámar henta einstaklega vel fyrir fyrirtæki jafnt sem einstaklinga og þá kannski helst fjölbýli og jafnvel geta nokkur hús tekið sig saman og verið með sameiginlega úrgangslausn. Verktakar jafnt sem íbúar allir eru hvattir til þess að skoða þessa lausn í framkvæmdum, og þá sérstaklega nýframkvæmdum, þegar hugað er að úrgangslausnum. Djúpgámalausnirnar sem settar hafa verið upp í Innri Njarðvík eru frá Terra Umhverfisþjónustu en aðrir aðilar sem selja þessar lausnir eru m.a. HP Gámar og Íslenska Gámafélagið.

Við fögnum þessum áfanga og óskum íbúum til hamingju með þessa glæsilegu djúpgáma.