Drög að ársreikningi Reykjanesbæjar 2019 í meðferð hjá bæjarstjórn

Ráðhúsið
Ráðhúsið

Seinkun hefur orðið á að birta ársreikning Reykjanesbæjar 2019 vegna þeirra takmarkana sem yfirvöld settu á með samkomubanni í mars síðastliðnum. Í kjölfarið var ljóst að bráðabirgðalagabreytingu þyrfti til þegar kæmi að endurskoðun og samþykki ársreikninga sveitarfélaga. Sveitarstjórnarlögin kveða á um tímamörk þegar kemur að afgreiðslu ársreikninga sveitarfélaga og samkvæmt þeim þarf sveitarfélag fyrir 15. maí ár hvert að afgreiða ársreikning í tveimur umræðum í bæjarstjórn. Var sveitarfélögum og endurskoðendum þeirra gert kleift með bráðabirgðaákvæði á árinu 2020 að lengja þessi tímamörk um mánuð eða til 15. júní. Reykjanesbær nýtti það svigrúm þar sem ráðhúsi Reykjanesbæjar var lokað fyrir utanaðkomandi aðilum og hólfað niður frá 16. mars samkvæmt tilskipunum um 20 manns að hámarki í rými. Ráðhúsið verður opnað þann 25. maí fyrir utanaðkomandi aðilum samkvæmt þeim fyrirmælum sem sett hafa verið af yfirvöldum.

 Drög að ársreikningi voru kynnt í bæjarráði 14. maí síðastliðinn og var þeim vísað til endurskoðunar og til fyrri umræðu í bæjarstjórn eins og sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir. Við endurskoðun getur ýmislegt komið upp sem ekki er fyrirsjáanlegt svo drög að ársreikningi geta breyst á milli fyrri og seinni umræðu.

 Útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða Reykjanesbæjar samkvæmt drögum sé mjög góð en á árinu 2019 átti sér m.a. stað sala á hlutabréfum í HS Orku hf. sem kom sér vel fyrir Reykjanesbæ við upplausn á Fagfjárfestingasjóðnum ORK. Í kjölfarið var ráðist í að kaupa eignir af Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf., dótturfélagi Reykjanesbæjar, með því markmiði að lækka leiguskuldbindingar bæjarins.

 Ljóst er að heimsfaraldur af völdum COVID-19 veirunnar muni hafa veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þannig mun faraldurinn hafa veruleg fjárhagsleg áhrif á Reykjanesbæ á árinu 2020 og á komandi árum. Útsvarstekjur bæjarins og framlög frá Jöfnunarsjóði munu dragast töluvert saman vegna minni i umsvifa í atvinnulífinu og aukins atvinnuleysis. Útgjöld muni aukast vegna atvinnuskapandi verkefna og aukinnar fjárhagsaðstoðar. Erfitt er að meta endanleg áhrif á rekstur og efnahag bæjarins á meðan óvissa ríkir um hversu lengi ástandið varir.

 Ársreikningur, eftir breytingar sem kunna að eiga sér stað við endurskoðun hans, verður til umræðu á bæjarráðsfundi næstkomandi fimmtudag 28. maí þar sem endurskoðendur sveitarfélagsins mæta, svara spurningum bæjarfulltrúa og kynna endurskoðunarskýrslu. Í kjölfarið verður seinni umræða um ársreikning á bæjarstjórnarfundi þann 2. júní þar sem hann verður borinn upp til samþykktar. Endurskoðunarskýrsla verður þá einnig til umfjöllunar hjá bæjarstjórn.