Endurbókun í Bókasafni Reykjanesbæjar

Laugardaginn 18. apríl kl. 16:00 verður mjög athyglisverð listsýning opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar. Sýningin nefnist ENDURBÓKUN en um er að ræða verk sem öll eru unnin úr gömlum bókum sem lokið hafa hlutverki sínu en öðlast nýtt líf í einstæðum listaverkum. Sýningin stendur til 30. maí og er opin á opnunartíma Bókasafnsins.

Það eru ARKIR, hópur tíu listakvenna sem standa að bókverkagerðinni, en þær sinna öllu jafna fjölbreyttri listsköpun á sviði málara- og grafíklistar, texíl- og ritlistar, myndlýsinga og hönnunar, en eiga það sameiginlegt að hrífast af bókverkum.

Bókverk er samheiti yfir listaverk sem tengjast á einhvern hátt bókinni sem formi og hugtaki. Fjölbreytni bókverka er óendanleg enda hugmyndaflug listamannsins eina takmörkunin. Bókverk geta verið fjölfölduð eða einstæð, aðeins til í einu eintaki, með augljósu yfirbragði handverksins eins og mörg verkanna á sýningunni Endurbókun. Aðferðirnar sem notaðar eru við sköpunina eru margvíslegar; pappírsbrot, klippitækni og skurður, textílaðferðir, málun og teikning og þrykkaðferðir svo nokkuð sé nefnt.

Eftirtaldar listakonur eiga verk á sýningunni: Anna Snædís Sigmarsdóttir, Arnþrúður Ösp Karlsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Ingiríður Óðinsdóttir, Kristín Þóra Guðbjartsdóttir, Sigurborg Stefánsdóttir, Svanborg Matthíasdóttir.

Meðfylgjandi myndir af bókverkum tók Kristín Þóra Guðbjartsdóttir.