Það voru glaðir og kátir krakkar sem tóku við þátttökuverðlaunum fyrir þátttöku í BAUN, barna- og ungmennahátíð í vikunni en þau duttu svo sannarlega í lukkupottinn þegar nöfn þeirra voru dregin úr stórum potti BAUNabréfa sem skilað hafði verið inn.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem studdi dyggilega við verkefnið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir sitt framlag.

Trampólín frá Húsasmiðjunni hlutu þær Dagbjört Lilja Matthíasdóttir og Rakel Skagfjörð Kolbeinsdóttir. Þau Júlía Sif Gísladóttir, Úlfar Birnir Bachmann, Guðrún Tinna og Kristófer Orri Grétarsson fengu í sinn hlut bíómiða, popp og drykk fyrir fjóra.

Þátttaka í BAUN sem fram fór dagana 28. apríl – 8. maí var einstaklega góð og bærinn iðaði af lífi þar sem börn og fjölskyldur fóru um að leysa ýmsar þrautir, taka þátt í smiðjum og viðburðum og safna um leið stimplum og svörum í BAUNabréfið sitt. Sem dæmi um þátttökuna má nefna að 5.300 manns lögðu leið sína í Duus Safnahús á meðan á hátíðinni stóð. Um 30 dagskrárliðir voru á dagskrá en nóg var að taka þátt í átta þeirra til að geta skilað inn BAUNabréfinu og komast í lukkupottinn.

BAUNabréfið var í upphafi búið til sem viðbrögð við samkomutakmörkunum og hugmyndin sú að fjölskyldan gæti farið á kreik og átt góðar stundir við ýmislegt sem bærinn okkar býður upp á. Viðbrögðin voru hins vegar svo góð að full ástæða þótti til að halda áfram að vinna með og þróa hugmyndina. Viðbrögðin létu heldur ekki á sér standa og virkilega gaman að sjá hve áhugasamir krakkarnir okkar eru.

Niðurstöður könnunar

Að hátíðinni lokinni var stutt könnun sett í loftið til að gefa foreldrum og aðstandendum kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi hátíðina og fyrirkomulag hennar. Á annað hundrað svör bárust sem munu nýtast mjög vel við undirbúning næstu BAUNar.

Hér má sjá nokkrar niðurstöður:

Spurt var um hversu mörgum dagskrárliðum barnið hafði tekið þátt í (Staðir heimsóttir, þrautir leystar, smiðjur, viðburðir).

 

Hér má sjá að þátttaka í dagskránni má teljast mjög góð þar sem tæplega 80% þeirra barna sem svarað var fyrir tóku þátt í fjórum eða fleiri viðburðum.

Einnig var spurt um hversu ánægt eða óánægt fólk var með að hafa haft BAUNabréfið til að leiða sig í gegnum hátíðina og ljóst að yfir 90% svarenda voru mjög eða frekar ánægðir með það.

Spurt var um ánægju barnanna með þátttöku í hátíðinni og voru 94% mjög eða frekar ánægð sem er auðvitað mjög ánægjulegt.

Þá var einnig spurt hversu ánægt fullorðna fólkið sem svaraði könnuninni hefði verið með hátíðina og voru yfir 90% mjög eða frekar ánægðir.

Það má því segja að þessar niðurstöður staðfesti þá tilfinningu sem verkefnastjórn hátíðarinnar hafði að almenn ánægja væri með fyrirkomulag hennar. Að lokum var svarendum gefinn kostur á að koma á framfæri hugmyndum eða athugasemdum vegna hátíðarinnar og bárust fjölmargar athugasemdir sem munu nýtast virkilega vel við áframahaldandi þróun hennar. Það er mjög mikils virði að fá endurgjöf frá þeim markhópi sem hátíðin beinist að og eru öllum þeim sem gáfu sér nokkrar mínútur til að svara könnuninni færðar sérstakar þakkir.

Sjáumst á næstu BAUN 27. apríl – 7. maí 2023.