- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Guðmundur Leo Rafnsson og Eva Margrét Falsdóttir voru valin íþróttafólk Reykjanesbæjar 2025. Þau koma bæði frá Sundráði ÍRB og hljóta viðurkenninguna fyrir framúrskarandi árangur á árinu, ásamt því að sýna fyrirmyndar framkomu innan sem utan keppnislaugarinnar.
Hófið var haldið í Stapanum og var mjög vel sótt af íþróttafólki og aðstandendum. Mikil gleði ríkti í salnum og verðlaun voru afhent til þeirra sem sýndu framúrskarandi árangur á árinu. Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu voru heimsmeistararnir Jóhannes Frank Jóhannesson og Elsa Pálsdóttir og einnig fengu Íslandsmeistarar viðurkenningu fyrir árangur sinn. Sjálfboðaliðar voru heiðraðir fyrir ómetanlegt starf sitt til íþróttastarfs í Reykjanesbæ. Framlag þeirra skiptir sköpum fyrir starfsemi deildanna og er ómetanlegt að eiga aðila sem gefa tíma sinn og krafta til að efla íþróttastarf fyrir alla aldurshópa í Reykjanesbæ.
Íþróttafólk Reykjanesbæjar
Guðmundur Leo hefur verið fastamaður í landsliði SSÍ og átt annríkt ár í landsliðsverkefnum og keppni. Hann hefur haldið áfram að bæta sig jafnt og þétt og endurskrifa metabækur UMFN/ÍRB í fullorðinsflokki, auk þess sem hann er að nálgast Íslandsmetin í 100m og 200m baksundi og skriðsundi. Á árinu vann hann sjö Íslandsmeistaratitla og stóð sig frábærlega á Smáþjóðaleikum í Andorra þar sem hann hlaut þrjú gull, eitt silfur og tvenn brons. Guðmundur Leo er í Afrekslandsliði SSÍ og hefur sýnt mikinn metnað, vinnusemi og fagmennsku sem gerir hann að fyrirmynd í íþróttum.
Eva Margrét hefur einnig verið fastamaður í landsliði SSÍ og átt afar viðburðaríkt tímabil. Hún er fjölhæfur sundmaður og hefur verið dugleg að endurskrifa metabækur Keflavíkur/ÍRB í fullorðinsflokki í fjölmörgum greinum, en hennar aðalgrein er fjórsund. Á árinu vann hún sex Íslandsmeistaratitla og kom hlaðin verðlaunum af Smáþjóðaleikum í Andorra, með tvenn gull og tvenn brons. Hún lauk árinu á Norðurlandamótinu þar sem hún vann silfur í 400m fjórsundi og brons í 200m fjórsundi. Eva Margrét er í Afrekslandsliði SSÍ og hefur með metnaði, dugnaði og jákvæðu hugarfari verið frábær fyrirmynd fyrir aðra sundiðkendur.
Reykjanesbær er afar stoltur af þessum efnilegu íþróttamönnum og því öfluga starfi sem unnið er í bænum. Reykjanesbær óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju!