Farþegum í ókeypis strætó fjölgar ört

Allir í strætó, það kostar ekkert.
Allir í strætó, það kostar ekkert.

„Það er ánægjulegt að geta skýrt frá því að breytingarnar sem við gerðum á strætósamgöngum um áramót eru að skila 70% fjölgun farþega það sem af er þessu ári. Við höfum ekki séð jafn mikla fjölgun frá því að við hófum að bjóða ókeypis almenningssamgöngur fyrir alla fyrir 7 árum síðan, en þá tók notkunin einnig mikinn kipp“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri.

Þetta er meðal þess sem kynnt er á íbúafundum sem nú standa yfir í Reykjanesbæ.
Samgöngukerfið byggir á fjórum leiðum. Á þremur leiðum er notast við almenningsvagna, þar sem ferðatíðni var aukin og ekið lengur fram á kvöld og um helgar. Fjórða leiðin er síðan leigubílaþjónusta við Hafnir á Reykjanesi, þar sem ekið er eftir leiðar- og tímakerfi eins og í öðrum hverfum, en notast við leigubíla.

Miðja kerfisins verður nú færð að Krossmóum, sem eru við svokallaða Þjóðbraut og við eitt helsta þjónustusvæði bæjarins.