Fida Abdu Libdeh fékk hvatningarverðlaun

Fida Abdu Libdeh
Fida Abdu Libdeh

Viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu FKA fór fram í vikunni þar sem veittar voru viðurkenningar til kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd.

Fida Abdu Libdeh framkvæmdastjóri GeoSilica fékk FKA hvatningarviðurkenninguna fyrir athyglisvert frumkvæði en það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækisins GeoSilica sem staðsett er í Reykjanesbæ.

„Fida hefur sýnt og sannað með störfum sínum að hún er með kjark og þor sem er mikilvægt fyrir alla sem vilja ná árangri. Hún stofnaði nýsköpunarfyrirtækið Geosilica sem framleiðir fæðubótarefni úr kísil og hefur ekki látið neitt stoppa sig í að koma vörunum sínum í sölu á erlendum mörkuðum. Stofnun Geosilica er um margt athyglisverð, þar sem verið er að nota jarðvarma, hráefni úr jörðinni, það er umhverfisvænt og gott fyrir líkamann.

Árangur Fidu er einstakur og mikil hvatning til kvenna almennt en sérstaklega til erlendra kvenna. Það er magnað að sjá hvernig hún hefur aðlagast íslenska samfélaginu og er fremst meðal jafningja sem kona í orkugeiranum og í nýsköpunarfyrirtæki með sjálfbærni að leiðarljósi. Fida er skemmtilegt sambland af vísinda- og markaðskonu sem hefur látið drauma sína rætast með stofnun Geosilica. Hún hefur menntað sig markvisst í þeim greinum sem nýttust henni best til að ná þeim markmiðum sem hún hefur sett sér með sitt fyrirtæki (umsögn FKA)“

Reykjanesbær óskar Fidu til hamingju með viðurkenninguna.