Fimm daga lista- og menningarveisla hafin

Bæjarbúar fylltu skrúðgarðinn í gær og sungu inn Ljósanótt með Ingó veðurguði og fleiri tónlistarmö…
Bæjarbúar fylltu skrúðgarðinn í gær og sungu inn Ljósanótt með Ingó veðurguði og fleiri tónlistarmönnum. Ljósmynd: Víkurfréttir

Bæjarbúar fylltu skrúðgarðinn í Keflavík í blíðskaparveðri í gær þegar 19. Ljósanæturhátíðin var sett. Grunnskólabörn drógu Ljósanæturfánann að húni sem markar upphaf Ljósanæturhátíðar. Aðrir dagskrárliðir gærdagsins, s.s. Ljósanæturhlaup Lífsstíls og frumsýning tónlistarsýningarinnar „Með diskóblik í auga“ fóru að sama skapi vel fram. Framundan er mikil listaveisla í fjóra daga með hápunkti á hátíðarsviði á Laugardagskvöld. 

Setning Ljósanætur var með nýju sniði þetta árið. Hún er orðin að fjölskylduhátíð síðari hluta dag. Erfitt reynist að koma 2400 börnum að Myllubakkaskóla á skólatíma en fjöldi grunnskólanema hefur tvöfaldast frá því hátíðin var fyrst sett árið 2000. Bæjarbúum hefur að sama skapi fjölgað mikið og þar sem hlutfall innflytjenda er orðið 23% verður áskorun 20. Ljósanætur að ná til alls þess fjölda bæjarbúa sem eiga annað móðurmál en íslensku, að því er fram kom í setningarræðu Kjartan Más Kjartanssonar bæjarstjóra í gær.

Margt var til gamans gert á setningarhátíðinni og má segja að Ljósanótt hafi beinlínis verið sungin inn. Kór nemenda hóf dagskrá á því að syngja Meistara Jakob á fjórum tungumálum sem og Ljósanæturlag  Ásmundar Valgeirssonar „Velkomin á Ljósanótt“ . Ingó veðurguð tók svo við keflinu og hvatti gesti til söngs svo heyrðist um allan bæ. Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson luku söngdagskrá m.a. með laginu „Mamma þarf að djamma“. Sú verður sennilega raunin þessa Ljósanótt eins og svo oft áður, því vinsælt er hjá vinkonuhópum að hittast og gera sér glaðan dag saman á sýningum og rölti um bæinn.

Sýningar, sundlaugarpartý og skáldsaga

Það sem ber hæst í dagskrá dagsins er opnun fjögurra nýrra sýninga í Duus Safnahúsum; ljósmyndasýningarnar „Eitt ár á Suðurnesjum“ og „Eitt ár í Færeyjum“, Endalaust og „...svo miklar drossíur“. Auk þess verður  afsteypa af Súlunni, menningarverðlaunum Reykjanesbæjar eftir Elísabetu Ásberg  afhjúpuð. Þá verður opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar sýningin „List sem gjaldmiðill“. Um er að ræða myndlistarverkefni þar sem listamenn af Norðurlöndunum skapa sinn eigin gjaldmiðil.

Sigga Dögg kynfræðingur býður áhugasömum að skyggnast inn í hugarheim höfundar í skapandi ferli við skrif sinnar fyrstu skáldsögu KynVeru. Sundmiðstöðin/Vatnaveröld heldur sundlaugarpartý með plötusnúði fyrir börn í 5. – 7. bekk, hönnunarveisla verður opnuð á Park Inn by Radison auk þess sem fjöldi sýninga og viðburða verða um alla bæ. Verslanir verða opnar fram eftir kvöldi og margar bjóða rými sitt til sýningarhalds.

Fólki er bent á að kynna sér dagskrá Ljósanætur vel á vefnum ljosanott.is en honum mer skipt upp eftir dögum. Með því að smella á þennan tengil opnast vefur Ljósanætur.

Hér má sjá tvær sólir við setningu Ljósanætur. Gula risablöðru Ljósanætur og sjálfa sólina. Ljósmynd: Víkurfréttir