- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Starfsdagur velferðarsviðs Reykjanesbæjar fór fram í síðustu viku og tókst með miklum ágætum. Um 100 starfsmenn mættu á daginn sem einkenndist af fræðslu, samveru og innblæstri.
Fjölbreytt erindi voru á deginum. Fyrsta erindi dagsins flutti Helga Garðarsdóttir, sérfræðingur hjá KPMG, þar sem hún fjallaði um árangursmat á þjónustu fyrir eldra fólk og hver staðan er í dag og til framtíðar. Niðurstöður skýrslunnar sem kynntar voru fólu í sér hól til starfsfólks öldrunar- og stuðningsþjónustu sem sinnir sínu mikilvæga starfi mjög vel. Í framhaldinu var fjallað um farsæld barna á Suðurnesjum og innleiðingu farsældarverkefnisins hjá Reykjanesbæ. Þær Hjördís Eva Þórðardóttir og Eydís Rós Ármannsdóttir fluttu þar fróðleg erindi. Á meðal annarra fyrirlesara var Berglind Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur og jógakennari, sem kynnti hvernig nota megi jóga til þess að takast á við áfallasögu og áfallastreitu. Í hádeginu nutu þátttakendur hádegisverðar undir ljúfri tónlist Guðjóns Þorgils Kristjánssonar.
Eftir hádegi kynnti Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) starfsemi sína og minnti hópinn á að öll störf á velferðarsviði skipta miklu máli í hinu stóra samhengi. Andrea Klara Hauksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, hélt erindi fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um samvinnu til árangurs. Deginum lauk á léttum og skemmtilegum nótum þegar leikarinn Þorsteinn Bachmann fjallaði um mikilvægi húmors á vinnustað og hvernig jákvæðni og gleði geta styrkt starfsanda og samstöðu í hópnum.
Myndbönd úr starfsemi velferðarsviðs voru sýnd yfir daginn og gáfu góða innsýn í fjölbreytt og mikilvægt starf sviðsins.
Starfsdagurinn þótti bæði fræðandi og uppbyggilegur og var almennt góður andi meðal þátttakenda. Velferðarsvið þakkar öllum fyrir þátttöku og frábæran dag.