Fjölgun starfsfólks og auknar fjárfestingar í FLE

Björn Óli forstjóri Isavia.
Björn Óli forstjóri Isavia.

Á síðasta ári fóru um 2,4 milljónir farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en það var fjölgun um 12,7% frá árinu á undan. Þrátt fyrir aukna umferð yfir sumartímann varð mest fjölgun lendinga utan háannartíma og fjölgaði lendingum meðal annars um 17,5% í nóvember og 15,8% í desember. Þetta kom m.a. fram í viðtali við Björn Óla Hauksson forstjóra Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi, í Morgunblaðinu.

Að sögn Björns Óla er áætlað að ráðast í 1 til 1,5 milljarða fjárfestingar við flugstöðina til að auka nýtni hennar betur, bæta afgreiðslusvæðið og biðsvæði farþega í suðurbyggingunni. Þá sé einnig nauðsynlegt að ganga í breytingar við bifreiðastæðin og þá sérstaklega varðandi pláss fyrir rútur sem hafi verið vanmetið við síðustu breytingu.

Í sumar þegar allt sumarstarfsfólkið verður komið til starfa er gert ráð fyrir að heildarfjöldi starfsfólks Isavia verði um eitt þúsund. Fjölgunin stafar helst af starfsfólki við öryggisvernd.

Gert er ráð fyrir að um 100 manns muni vinna að meðaltali við framkvæmdir í tengslum við flugstöðina á komandi misserum, en auk þess fleiri störf tengd viðhaldi og nýjum verkefnum, svo sem við malbikun flugbrauta segir Björn.

Á næstu tveimur árum er áætlað að fjárfesta fyrir um 2,7 milljarða kr. á Keflavíkurflugvelli.