Fjölmenningardagur í Reykjanesbæ

Nú er sumarið framundan, sólin farin að láta sjá sig, margir teknir til við garðverkin, grillin komin út og fleira fólk á ferðinni í veðurblíðunni. Með vorinu og góða veðrinu birtir til, framtíðin verður þrátt fyrir allt á einhvern hátt bjartari, þótt ekki hverfi álag og þungi vetrarins með öllu og erfiðleikar margra séu alls ekki að baki, því miður. Bóndi nokkur kallaði vorið tíma lífsins og má það til sanns vegar færa. Hvert sem litið er sjáum við fjölbreytileika mannlífs og náttúru. Við búum í samfélagi margbreytileikans hvar sem litið er og í öllum þessum margbreytileika ríkir mikill mannauður. Við höfum nýlega fengið innsýn í þennan mannauð í verkefninu List án landamæra, hátíð sem miðar að því að auka samvinnu fatlaðra og ófatlaðra á sviði lista og menningar og skapa þannig fordæmi fyrir önnur svið samfélagsins.

Reykjanesbær leggur í starfi sínu og þjónustu áherslu á að allir íbúar sveitarfélagsins hafi möguleika á því að vaxa, dafna og þroska hæfileika sína eins og best verður á kosið óháð litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, þjóðerni, kynþætti, efnahag, skoðunum, ætterni eða stöðu að öðru leiti og telur það sameiginlegt hlutverk þeirra sem búa í Reykjanesbæ að stuðla að því markmiði, hvort sem er í einkalífi, samskiptum eða vinnu.
Íbúar Reykjanesbæjar eru tæplega 14.000 frá 62 þjóðlöndum, á öllum aldri með margbreytilega reynslu og menntun. Mannauður sem er verðmæt auðlind einstaklingunum sjálfum, atvinnulífinu og þjóðfélaginu öllu.
Laugardaginn 21. maí nk. ætlum við að halda upp á fjölbreytileikann og mannauðinn í okkar samfélagi með því að halda hátíðlegan fjölmenningardag í Reykjanesbæ. Með þátttöku fjölmargra aðila verður Opið hús í 88 - Húsinu, Hafnargötu 88 milli kl. 14:00 - 16:00.
Dagskrá fjölmenningardagsins er styrkt af áætlun Evrópusambandsins um atvinnu og félagslega samstöðu - Progress. Dagskráin verður borin í hús og vonumst við sem að undirbúningnum stöndum að bæjarbúar mæti og taki þátt í hátíðarhöldum fjölbreytileikans og mannauðsins í samfélaginu.
Hera Ósk Einarsdóttir verkefnastjóri.