Fjölskyldan saman í ævintýragöngu á Þorbjörn 11. maí

Gengið á Þorbjörn. Ljósmynd: Víkurfréttir
Gengið á Þorbjörn. Ljósmynd: Víkurfréttir

Ævintýraganga fjölskyldunnar á Þorbjörn við Grindavík verður farin laugardaginn 11. maí kl. 10:30. Það er Reykjanesbær sem býður til göngunnar  í samstarfi við Gönguhóp Suðurnesja, Björgunarsveitina Suðurnes og Leikfélag Keflavíkur. Gangan er sett á laggirnar í tengslum við málþingið „Út að leika,“ og Listahátíð barna í Reykjanesbæ. Gangan er ætluð allri fjölskyldunni og munu félagar úr Leikfélagi Keflavíkur sjá um að halda uppi góðri stemningu í göngunni. Þá munu félagar úr Björgunarsveitinni Suðurnes fylgja göngufólki alla leið. Fjölskyldur er hvattar til að fjölmenna og taka með sér nesti og góða skapið. Gangan leggur af stað frá bílastæðum við Þorbjörn.

Á málþinginu „Út að leika“ verður fjallað um frjálsan leik og útiveru barna og fjölskyldna. Málþingið fer fram föstudaginn 10. maí frá kl. 13-15 í fyrirlestrarsal Keilis að Grænásbraut 910, Ásbrú. Málþingið er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar og Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Meðal fyrirlesara þar verður Griffin Longley, ástralskur fjölmiðlamaður og frumkvöðull í öllu sem viðkemur útiveru og frjálsum leik barna. Griffin er stofnandi og framkvæmdastjóri Nature Play í Ástralíu. Gunnhildur Gunnarsdóttir forstöðumaður Fjörheima mun kynna starfsemina þar og Björn Þór Jóhannsson mannfræðingur og viðburðastjórnandi ætlar m.a. að ræða um hópefli, t.d. á vinnustöðum og mikilvægi leika, ekki síst í barna- og unglingastarfi.