Fjölskylduleikur Reykjanesbæjar um verslunarmannahelgina

Reykjanesbær
Reykjanesbær

Reykjanesbær býður upp á frábæran ratleik fyrir fjölskyldur um verslunarmannahelgina þar sem laufléttar þrautir og spurningar verða lagðar fyrir þátttakendur.

Fyrsta þrautin hefst hjá Takk fyrir að vera til fyrirmyndar veggnum sem staðsettur er fyrir aftan Duus safnahús við smábátahöfnina í Gróf. Þar eru þátttakendur látnir taka mynd af sér til þess að komast að næstu stöð. Þarna gefst tilvalið tækifæri til þess að taka þátt í Til fyrirmyndar átakinu, þakka þeim sem hafa verið til fyrirmyndar og birta mynd á samfélagsmiðlum undir merkjunum @tilfyrirmyndar og #tilfyrirmyndar

Við hvetjum alla til þess að taka þátt í þessari skemmtun, rölta um gamla bæinn og skapa dýrmætar minningar. Þeir sem ljúka við ratleikinn geta tekið ókeypis sundsprett í Sundmiðstöðinni gegn því að sýna þátttökuviðurkenningu sem þátttakendur geta fengið senda á tölvupóst eftir að seinustu þrautinni hefur verið lokið.

Hægt er að spila ratleikinn hvenær sem er á tímabilinu 31. júlí – 3. ágúst 2020. Það þarf aðeins að vera með snjallsíma eða spjaldtölvu til þess að taka þátt ásamt því að setja upp snjallforritið Actionbound og skrá sig til leiks í Takk Reykjanesbær ratleikinn. Ef upp koma einhver vandræði við skráningu er hægt að heimsækja Duus Safnahús, Duusgötu 2-8, og fá aðstoð.