Frá glæsilegri flugeldasýningu Ljósanætur.
Frá glæsilegri flugeldasýningu Ljósanætur.

Fjórtándu Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ lauk með glæsilegri flugeldasýningu í gærkvöldi, sólarhring síðar en fyrirhugað var, en blása þurfti af alla kvölddagskrá laugardagskvölds vegna slæms veðurs  sem gekk yfir vestanvert landið.

Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur verkefnastjóra Ljósanætur gekk þó hátíðin einkar vel fyrir sig að öðru leyti og sagði hún virkilega góða stemningu hafa verið í bænum frá fimmtudegi og fram á sunnudagskvöld. Valgerður sagði afskaplega leiðinlegt að svona skyldi hafa farið með útidagskrá laugardagskvölds en að náttúruöflin létu ekki að sér hæða og ekki við þau ráðið. Valgerður sagði gríðarlega undirbúningsvinna liggja að baki hátíð sem þessari og  að dagskráin væri undirbúin með margra mánaða fyrirvara. Oft hefði veðurspáin ekki verið hátíðinni hliðholl en úr ræst þegar mest á reyndi en því hafi ekki verið þannig farið í þetta sinn og því fór sem fór. Strax hafi verið farið í að athuga hvort fresta mætti dagskránni til sunnudagskvölds en þá hafi menn verið bókaðir í önnur verkefni svo það hafi ekki gengið. Valgerður greindi hins vegar frá því að atriðið, Fyrsti kossinn: Hljómar í 50 ár, sem æft hafi verið sérstaklega í tilefni hátíðarinnar verði sýnt í Andrew‘s leikhúsinu á Ásbrú n.k. miðvikudag kl. 19 og 21 og standi sýningin öllum opin á meðan húsrúm leyfir.

Að lokum lagði Valgerður áherslu á að hátíðin væri svo miklu meira en laugardagskvöldið og ekki mætti gleyma öllu því fólki sem stóð fyrir glæsilegum sýningum og margvíslegum viðburðum um allan bæ í 4 heila daga og að ekki kæmi til greina að láta þetta laugardagsbakslag draga kraftinn úr bæjarbúum, hátíðin hafi verið frábær að öllu öðru leyti og vildi hún skila sérstöku þakklæti til allra sem hönd lögðu á plóg og gerðu hátíðina jafn glæsilega og raun bar vitni.