- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
„Fólkið okkar“ er liður á samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar, þar sem markmiðið er að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu störf sem unnin eru hjá bænum og allt það góða fólk sem þar starfar. Að þessu sinni kynnum við Andra Má Þorsteinsson, kennara og tölvara við Heiðarskóla.
Andri Már er fæddur og uppalinn í Njarðvík. Hann gekk í Njarðvíkurskóla og síðar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann æfði körfubolta með Njarðvík um árabil og spilaði á trommur í pönkhljómsveit með æskuvinum í bílskúrnum heima. Í dag býr hann með unnustu sinni, Moniku, og dóttur þeirra, Malín Mey. Áhugamálin eru fjölbreytt, þar á meðal veiði, snjóbretti, tónlist, bíómyndir og útivera. „Ég hef einnig alltaf verið tölvunördi, og því fylgja nördaleg áhugarmál eins og forritun, 3d prentun og tölvuleikir“.
Andri hóf störf við Heiðarskóla haustið 2015, upphaflega fyrir tilviljun. Á þeim tíma starfaði hann sem sýningarstjóri í Sambíóunum í Keflavík og kynntist þar Haraldi Axel Einarssyni, sem var þá aðstoðarskólastjóri við Heiðarskóla. Haraldur sá tækifæri í Andra og bauð honum starf sem stuðningsfulltrúi. Andri þáði boðið og hefur verið í skólanum allar götur síðan. Staða hans hefur þróast jafnt og þétt, frá stuðningsfulltrúa yfir í kennslu á einstökum valgreinum og síðar sem umsjónarkennari. “Bryndís Jóna og Lóa Björg, fyrrverandi og núverandi skólastjóri Heiðarskóla, hafa einnig átt veruleg áhrif á faglega þróun mína sem kennara.” Í dag starfar hann sem tölvari, þar sem hann kennir forritun á miðstigi og í valgreinum á unglingastigi. Hann er einnig tengiliður milli kennara og tækninnar og styður við þau verkefni sem krefjast aðstoð við forrit, tækja eða tóla.
„Það sem veitir mér mestan innblástur í mínu starfi er að sjá nemendur kveikja á perunni,“ segir Andri. „Þegar þeir uppgötva að þeir geta sjálfir búið til eitthvað nýtt, hvort sem það er lítið forrit, lausn á verkefni eða ný sýn á heiminn í kringum sig.“
Lóa Björg Gestsdóttir, skólastjóri Heiðarskóla segir Andra vera einn af þessum starfsmönnum sem þeim langar að klóna margfalt. „Hann leggur sig virkilega fram í öll verkefni, er einstaklega úrræðagóður og lausnamiðaður. Hann nær vel til nemenda með hlýju, góðri nærveru og nálgun sem hentar hverjum einstaklingi, þannig nær hann líka alltaf því besta fram í hverjum og einum. Það þurfa allir einn Andra á sinn vinnustað.“
Takk fyrir spjallið, Andri og fyrir að kveikja hugmyndir og möguleika hjá næstu kynslóð.
Við hlökkum mikið til að halda áfram að segja frá Fólkinu okkar!
