Fólkið okkar – Júlía Svava Tello

„Fólkið okkar“ er liður á samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar, þar sem markmiðið er að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu störf sem unnin eru hjá bænum og allt það góða fólk sem þar starfar. Að þessu sinni kynnum við Júlíu Svövu Tello, sem starfar á Hæfingarstöð Reykjanesbæjar.

Júlía Svava er 27 ára og býr í Reykjanesbæ ásamt kærastanum sínum, Bjarna Rey, og dóttur þeirra, Taliu Líf, sem verður fjögurra ára. Þau eiga líka köttinn Gullu. Júlía er fædd og uppalin í Keflavík, gekk í Holtaskóla og síðar Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þaðan sem hún útskrifaðist með hæstu einkunn. Hún lauk BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2023 og langar einn daginn að mennta sig frekar í tengslum við starfið, þó það sé enn óákveðið hvert námið verði. Hún vinnur í nær fullu starfi á Hæfingarstöðinni og er líka í hlutastarfi á skammtímavistuninni Heiðarholti í Garðinum. Í frítímanum nýtur hún þess að hafa það kósý með fjölskyldunni, hitta vini, hlusta á tónlist og horfa á íþróttir.

Júlía byrjaði að vinna á Hæfó í október 2023. Hæfingarstöðin er dagþjónusta fyrir fatlað fólk þar sem markmiðið er að efla og virkja þjónustunotendur bæði félagslega og í starfi og leik. Hún segir stemninguna yfirleitt vera létta og skemmtilega og að mottóið þeirra sé „Enginn getur allt en allir geta eitthvað“ og skín það í gegn í öllum þeirra verkefnum.

Á Hæfó eru fjölbreytt verkefni í gangi. Þar er meðal annars rekin prentsmiðja sem tekur á móti pöntunum og pressar merkingar á flíkur og muni. Einnig er þar Hæfó-búðin sem er opin virka daga frá 8 til 16, þar sem þjónustunotendur selja vörur sem þeir hafa sjálfir búið til, þar á meðal hina frægu chili-sultu. Þá eru reglulega haldnar listasmiðjur, skartsmiðjur, karókí og umræðuhópar svo dæmi séu nefnd.

„Starfið mitt er afar fjölbreytt og enginn dagur eins,“ segir Júlía. „Það skemmtilegasta eru tengslin sem myndast við hvern og einn þjónustunotanda og að fá að styðja við það að þeir njóti sín í vinnunni. Við erum líka mjög samheldinn og góður hópur sem vinnur vel saman og tekst á við verkefnin með jákvæðni og gleði.“

Við þökkum Júlíu Svövu kærlega fyrir að opna dyrnar að sínu starfi og hlökkum við mikið til að halda áfram að segja frá Fólkinu okkar!